Þrjú smit eru staðfest í Vestmannaeyjum af Covid veirunni. Tvö þeirra eru á milli tengdra aðila. Ekki er búið að rekja hvaðan smitin eru.

Samkvæmt smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og almannavarna, eru 58 manns sem fara í sóttkví vegna smits sem greindist hjá leikskólakennara á Sóla í dag, þar af eru 14 börn á hvíta kjarna. Í lok dags munu á annað hundrað manns vera í sóttkví í Vestmannaeyjum, en verið er að hafa samband við einstaklinga sem þurfa að vera í 14 daga sóttkví. Þá eru einhverjir Eyjamenn væntanlegir erlendis frá í vikunni sem þurfa að sæta 14 daga sóttkví skv ákvörðun yfirvalda.

Páley Borgþórsdóttir, aðgerðastjóri almannavarnarnefndar segir að allur tími viðbragðaðila fari í greiningar og vinnu þessu tengdu. Fundur verður haldinn kl. 17.30 og vænta má að tilkynning verði gefin út í kjölfarið. Páley lagði áherslu á að almenningur fylgdi leiðbeiningum, en hægt er að sjá greinargóðar upplýsingar inn á heimasíðunni www.covid.is