Fjöldi barna með veiðistangir hefur verið áberandi á og við Nausthamarsbryggjuna undan farna daga. Trillu sjómaður sem Eyjafréttir ræddi við sagðist ekki hafa séð svona mikið af krökkum á bryggjunum í mörg ár og þetta minnti hann á fyrri tíð þegar bryggjan var aðal leikvöllurinn. „Þetta er bara skemmtilegt á meðan þau fara varlega og ganga vel um, sem þessir krakkar gera.“

Líklegt má telja að þetta aukna bryggju ráf barnanna megi rekja til COVID-19 faraldursins. En af hans völdum er nú skóladagurinn styttri hjá börnunum og allt skipulagt tómstundastarf, sem alla jafna hefur ofan af fyrir börnunum, liggur niðri. Það fór fáum sögum af aflabrögðum hjá þessu unga fólki en veiðihuginn vantaði ekki.