Við þurfum öll að aðlagast því ástandi sem nú er uppi og þeim hertu aðgerðum sem gripið hefur verið til í því skyni að hefta útbreiðslu COVID-19. Ýmsar spurningar hafa vaknað um það sem snýr að atvinnustarfsemi, verslun og þjónustu. Það skiptir okkur öll miklu máli að hjól atvinnulífsins snúist áfram þrátt fyrir samkomubann og fjöldatakmarkanir. Fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafa án undantekninga gripið til aðgerða á vinnustöðum til að hefta smit. Búið er að skipta upp vinnustöðum, starfsmönnum og kaffistofum og fólk reynir að halda sig í fjarlægð frá næsta manni í hópum sem ekki eru fleiri í en 10 manns. Þá gilda hvarvetna hertar reglur um þrif. Það gilda strangar reglur um borð í Herjólfi og unnið er eftir viðbragðsáætlun skipsins vegna faraldurs og voru þrif aukin um borð strax í byrjun febrúar. Áhöfninni er skipt upp og reynt er að takmarka samneyti á milli fólks. Herjólfur er okkur gríðarlega mikilvægur og allt kapp er lagt á að hann muni sigla milli lands og Eyja þrátt fyrir faraldur. Atvinnulífið hefur tekið vel við sér í smitvörnum og allir hafa lagst á eitt við að láta þetta ganga upp. Þið eigið þakkir skyldar fyrir ykkar framlag.

Matvöruverslanir í Eyjum þurfa að aðlaga sig að hertum aðgerðum en þær eru okkur lífsnauðsynlegar og verða að vera opnar. Þar gildir ekki sú regla að aðeins 10 manns megi vera inni í verslun á hverjum tíma. Um stór húsnæði er að ræða og rétt er að miða fjöldatakmörkun við hvert rými fyrir sig og miða þá við að hver gangur sé eitt rými, hvert kælirými sé eitt rými, biðsvæði við kassana sé eitt rými og svo framvegis. Það er ekki ætlast til þess að fólk safnist saman á þessum stöðum 10 eða fleiri en eðlilegt rennsli verður að vera í verslununum og á þessum árstíma er ekki tilhlýðilegt að fólk standi fyrir utan. Ef fólk einbeitir sér að því að versla og fara á eðlilegum hraða í gegnum verslanirnar þá verður þetta ekki vandamál.

Það væri óskandi að hægt væri að halda allri verslun og þjónustu óskertri en því miður þá hefur þurft að grípa til aðgerða sem snerta sum svið þjónustu. Aðdáunarvert er að sjá fyrirtæki aðlagast þessum skrýtnu tímum og senda til dæmis leikfimistíma út á netinu, veitingastaði senda heim og svo framvegis. Við erum öll á sama báti og erum síður en svo lögst í dvala þó við þurfum að takmarka samveru. Reynum öll að nýta okkur þá þjónustu sem í boði er þrátt fyrir að um heimsendingu sé að ræða eða afgreiðslu með öðru sniði en við erum vön. Við skulum reyna að halda áfram að lifa eðlilegu lífi og njóta okkar þó það sé með breyttu sniði.

Páley Borgþórsdóttir, aðgerðastjóri og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.