Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum vill halda áfram að veita borgurunum þá mikilvægu þjónustu sem embættinu er falið lögum samkvæmt, en þó þannig að lágmarka áhættuna því samfara fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Í því skyni að leita leiða til að tryggja órofinn rekstur hefur eftirfarandi verið ákveðið:

Aðgengi að skrifstofu verður takmarkað
Skrifstofa embættisins verður lokuð öðrum en starfsmönnum frá og með mánudeginum 23. mars þar til annað verður ákveðið. Við hvetjum viðskiptavini okkar til að hafa samband í síma 458 2900 eða á netfangið [email protected]. Starfsmenn munu meta erindi fólks í ljósi þess hvort brýna nauðsyn beri til að viðskiptavinir mæti á skrifstofuna og úthluta þá viðtalstímum. Öðrum erindum verður sinnt rafrænt.

Unnt er að leggja inn gögn, þ.m.t. þinglýsingarskjöl um bréfalúgu. Mikilvægt er að þá fylgi upplýsingar um tengilið, svo sem nafn, netfang og símanúmer.

Vegna greiðslu opinberra gjalda vísast á bankareikning embættisins: 0582-26-2 kt. 490169-7339.

Endurnýjun ökuskírteina, týnd ökuskírteini
Vakin er athygli á því að hægt er að sækja um bráðabirgðaheimild vegna endurnýjunar almennra ökuréttinda með því að senda okkur línu á [email protected] og gefa upp kennitölu. Bráðabirgðaheimild í 1 mánuð verður send í tölvupósti. Prenta þarf heimildina út og hafa meðferðis við akstur. Athugið að gildistími ökuskírteinis styttist með hækkandi aldri eftir 69 ára. Til dæmis fá 69 ára ökuskírteini í 5 ár en 70 ára í 4 ár. Bráðabirgðaheimild jafngildir ekki umsókn um nýtt ökuskírteini.

Við hvetjum viðskiptavini til að kynna sér eftirfarandi
Á vef sýslumanna, www.syslumenn.is má nálgast fjölmörg eyðublöð. Erindi á eyðublöðum sendist rafrænt á [email protected]. Á vefsíðunni www.island.is má og nálgast gagnlegar upplýsingar. Fylgist líka með okkur á Facebook.

Við tökumst á við þetta í sameiningu!

22. mars 2020
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum
Kristín Þórðardóttir, settur sýslumaður