Margar spurningar brenna á fólki í Eyjum varðandi ástandið vegna COVID-19. Til að bregðast við því býðst Vestmannaeyingum nú að leggja inn spurningar í spurningabanka þar sem að aðrir geta þá greitt spurningum atkvæði og þannig aukið vægi þeirra spurninga í spurningabankanum. Þessi viðburður er fyrst og fremst hugsaður fyrir Eyjamenn og viljum við biðja aðra landsmenn og blaðamenn að finna sínum spurningum annan farveg.

Kerfið sem verður notað heitir slido.com Þið einfaldlega farið á vefsíðuna http://www.slido.com sláið inn þáttökukóðann Covid19-VM. Þá fáið þið aðgang að spurningabankanum og getið rennt yfir þær spurningar sem þegar eru komnar. Hægt er að gefa þeim spurningum atkvæði sem ykkur finnst að eigi að fá aukið vægi í bankanum með því að smella á „þumal upp“ myndina hægra megin við spurninguna. Við það fær spurningin auki vægi frá ykkur og aukast þannig líkurnar á að henni verði svarað í myndbandinu. Þeir sem að vilja notast við farsíma eða spjöld geta farið inn á sömu slóð eða notað myndavél tækisins til að skanna inn QR kóðann hér til hliðar.

Nauðsynlegt er að hafa eftirfarandi í huga:

a) Áður en spurning er lögð fram er mikilvægt að renna yfir þær spurningar sem eru komnar og kanna hvort að ykkar spurning leynist þar. Endurteknar spurningar dreifa atkvæðamagninu á bak við hverja spurningu sem gæti valdið því að spurning sem brennur á mörgum en hefur verði marglögð fram nái ekki því atkvæðamagni sem þarf til að vekja athygli svarenda. b) Setjið einungis fram eina spurningu í einu. Fyrirspurnarsvæðið er takmarkað og því þarf spurningin að vera hnitmiðuð c) Ólíklegt er að spurningum sem ekki lúta að almannaheill okkar Vestmannaeyinga verði svarað.

Opið verður fyrir innlögn í spurningabankann frá klukkan 15:00 í dag sunnudag og fram á 15:00 á morgun mánudag. Hjörtur Kristjánsson sóttvarnalæknir, Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri munu svo svar þeim spurningum sem helst brenna á fólki í myndbandi.

Stefnt er svo að því að koma myndbandinu á heimasíðu bæjarins á að kvöldi mánudagsins 23. mars n.k.

Aðgerðastjórn almannavarna í Vestmannaeyjum