Bæjarstjórn fundaði eftir hádegi í dag þar var eitt mál til umræðu, lagabreyting á sveitarstjórnarlögum og ákvarðanir því tengt.

Á grundvelli þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna á Íslandi vegna farsóttar af völdum Covid-19, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra birt auglýsingu, með vísan til VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, þar sem sveitarstjórnum er heimilt að ákvarða tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga og 5. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 4. desember 2013, um leiðbeiningar um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna, nr. 1140/2013.

Til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags er öllum sveitarstjórnum t.d. heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, ákveða að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í slíkum fundum, ákveða valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en greinir í bæjarmálasamþykkt, fela fastanefndum eða einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála og að staðfesting fundargerða verði með öðrum hætti en kveðið er á um í reglum.

Í ljósi nýsamþykktra breytinga á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og auglýsingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um beitingu VI. bráðabirgðaákvæðis laganna, hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja ákveðið eftirfarandi:

1. Að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.

2. Að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins í fjarfundarbúnaði.

3. Að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10 og 11. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 15. janúar 2013, um ritun fundargerða, nr. 22/2013, m.ö.o. fundargerð er send á bæjarfulltrúa strax að loknum fjarfundi og skulu bæjarfulltrúar senda svar með tölvupósti á fundarritara þar sem fundargerð fundarins er staðfest. Þegar bæjarfulltrúar sitja næst fund sem ekki er fjarfundur skulu þeir undirrita fundargerðir eins og mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. umræddra leiðbeininga innanríkisráðuneytisins um ritun fundargerða.

Ákvörðun þessi gildir til 18. júlí 2020 skv. auglýsingu ráðherra, nema bæjarstjórn ákveði að afnema ákvörðunina fyrr.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.