Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi hafa skilað inn umsögn um frumvarp til laga um
aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Fram kemur í umsögninni að Íslenskur sjávarútvegur fer ekki varhluta af þessum fordæmalausu aðstæðum. Ljóst er að markaður með íslenskar sjávarafurðir fer hratt minnkandi og sums staðar er hann raunar hverfandi. Veitingastaðir, hótel, mötuneyti og fiskborð matvöruverslana loka stórum dráttum um víða veröld, auk þess sem staða birgja og dreifikerfa er víða í óvissu.

Markaðurinn hruninn
Eftirspurn eftir ferskum sjávarafurðum í Evrópu og Bandaríkjunum er því sem næst
engin, með tilheyrandi áhrifum á útflutning fisks frá Íslandi. Þá má vænta þess að
hægja mun á eftirspurn eftir frystum afurðum auk þess sem verð fari lækkandi þegar
fleiri framleiðendur frysti sínar afurðir. Jafnframt getur hvenær sem er komið til þess
að fiskvinnslur og útgerðarfyrirtæki þurfi að loka vegna starfsfólks í sóttkví eða
samkomubanns stjórnvalda. Það hefði í för með sér meiriháttar hrun í framboði
íslensks sjávarfangs.

Vilja fresta greiðslu á veiðigjöldum
Íslenskur sjávarútvegur greiðir sérstakt gjald af lönduðum afla, veiðigjald. Gjaldið er
33% af reiknaðri afkomu hvers nytjastofns og er innheimt mánaðarlega. Rekstrarforsendur tveimur árum fyrir álagningu ráða fjárhæð veiðigjaldsins. Rekstrarforsendur eru hins vegar að verulegu leyti brostnar með fordæmalausum hætti. Veiðigjald er því innheimt í efnahagslegum hamförum, byggt á upplýsingum úr rekstri þegar til muna betur áraði. Til þess að gefa sjávarútvegsfyrirtækjum ráðrúm til að mæta tekjuhruni þyrfti að horfa til tímabundinnar niðurfellingar eða frestunar tekjuöflunar sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, auk þeirra almennu aðgerða sem frumvarpið tiltekur. Því fara samtökin þess á leit við nefndina að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þess efnis að frestun á greiðslu veiðigjalds verðr sömuleiðis að veruleika við þessar aðstæður, líkt og raunin er um aðra skatta og gjöld samkvæmt þessu frumvarpi.

Fiskeldi eykur fjölbreytileika útflutningsgreina
Fiskeldi styrkir byggðafestu víða um land og stuðlar að aukinni verðmætasköpun,
framleiðsluaukningu og atvinnuuppbyggingu sem þarf að eiga sér stað á Íslandi á
næstu árum og áratugum. Fiskeldi stuðlar jafnframt að auknum fjölbreytileika
útflutningsgreina sem skýtur sterkari stöðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.
Mikilvægi þess ætti að blasa við nú þegar áföll ríða yfir útflutningsgreinar landsins. Er
því afar mikilvægt að fiskeldi nái fótfestu, dafni og þróist án þess að óraunhæfar kröfur
um gjaldheimtu kollvarpi greininni. Hafa verður í huga að flest fiskeldisfyrirtæki eru
enn í uppbyggingarfasa og ljóst er að greinin stendur frammi fyrir verulegri
fjárfestingarþörf á næstu árum.

Fiskeldisfyrirtæki í sjókvíaeldi greiða einnig sérstök gjöld, bæði gjald vegna fiskeldis í
sjó, sem er reiknað af hverju kílógrammi af slátruðum laxi, og umhverfisgjald. Með
frestun þessara sértæku gjalda eða niðurfellingar út árið 2021 mætti veita
fiskeldisfyrirtækjum meira svigrúm til að bregðast við fyrirséðum tekjusamdrætti við
þær aðstæður sem nú eru uppi. Því fara samtökin þess á leit við nefndina að gerðar
verði breytingar á frumvarpinu þess efnis.

Sjávarútvegur og fiskeldi eru tvær af undirstöðuútflutningsgreinum þjóðarinnar. Ekki
er síður nauðsynlegt að veita þeim atvinnugreinum skjól, í þeim efnahagslegu
hörmungum sem nú ganga yfir.

Vilja stimpilgjöld af skipum
Að endingu beina samtökin þeirri tillögu til nefndarinnar að gera breytingar á
frumvarpinu þess efnis að tillaga til breytinga á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013,
um afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa verði afgreidd sem
hluti af þessum bandormi. Umrædd tillaga hefur verið lögð fram á Alþingi sem
stjórnarfrumvarp og er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. þingskjal 354, 313. mál.
Samtökin árétta mikilvægi þess að ná fram þeirri hagsbót fyrir rekstrarumhverfi skipa
og útgerða hið fyrsta.