Á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudag, voru meðal annars ræddar þær efnahagsaðgerðir ríkistjórnarinnar sem snúa að sveitarfélögum. Ljóst er að stjórnvöld og aðrir opinberir aðilar þurfa að koma myndarlega að hvers konar tilslökunum, aðgerðum og framkvæmdum meðan veiran gengur yfir.
Þar eru sveitarfélög hvött til að samþykkja tilslakanir gjalda á íbúa og fyrirtæki og beita sér fyrir fjölgun starfa og annarra mótvægisaðgerða. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið að gerð hugmynda og ábendinga um hvers konar aðgerðir sveitastjórnir geti gripið til.

Stjórnendur Vestmannaeyjabæjar hafa þegar hafið undirbúning að tilslökunum og öðrum aðgerðum til að létta birgðar heimila og fyrirtækja. Hægt er að grípa til nokkurra aðgerða strax, en aðrar þurfa meiri undirbúning. 

Fasteignagjöldum frestað
Á fundinum í gær var lagt til að fresta næstu tveimur gjalddögum fasteignagjalda (fasteignaskatti, sorpeyðingargjaldi, holræsagaldi og lóðaleigu) og færa þá aftur fyrir áður auglýsta gjalddaga.
Bæjarráð samþykkir að gjalddagar fasteignagjalda 15. apríl og 15. maí n.k. koma því til greiðslu 15. desember 2020 og 15. janúar 2021. Næsti gjalddagur fasteignagjalda kemur til greiðslu 15. júní n.k.

Bæjarráð samþykkir að Vestmannaeyjabær innheimti aðeins gjöld fyrir þá þjónustu sem veitt er.
Það þýðir t.d. að ef foreldrar tilkynna að þeir sendi börn sín ekki í leikskóla á einhverju tímabili verða ekki innheimt leikskólagjöld fyrir umrætt tímabil.
Ennfremur samþykkir bæjarráð að fresta því til a.m.k. 25. apríl n.k. að senda út reikninga vegna þjónustu sem Vestmannaeyjabær hefur þegar veitt, t.d. leikskólagjöld og þjónustu leik- og grunnskóla. Með þessu gefst starfsmönnum bæjarskrifstofa færi á að öðlast betri yfirsýn yfir hvaða þjónusta er raunverulega notuð í apríl og að vinna leiðréttingar vegna þjónustu í marsmánuði sem hefur verið greitt fyrir en ekki nýtt.

Framkvæmdum flýtt
Þá samþykkir bæjarráð að unnið verði að því að færa til framkvæmdir og viðhald á vegum bæjarins til þess að skapa einstaklingum störf og fyrirtækjum tekjur. Stjórnendur bæjarins hafa þegar lagt til að flýta nokkrum viðhaldsverkefnum í fjárhagsáætlunum bæjarins og ákveðið er að leita allra leiða til að færa til verkefni.

Í framhaldinu verður lagst í að skoða og undirbúa frekari framkvæmdir á árinu og að færa til framkvæmdir til þess að efla verkefnastöðu og atvinnu í Vestmannaeyjum. Þá haldi Vestmannaeyjabær áfram að leggja sig fram um að versla þjónustu og ráðgjöf í heimabyggð þegar þess er kostur. Kanna möguleika á þátttöku ríkisins við uppbyggingu innviða í Vestmannaeyjum og hvetja til þess að endurgreiðslu vsk. vegna framkvæmda og viðhaldsverkefna eigi jafnframt við um sveitarfélög.

Þá var lagt til að við gerð fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021 verði kannað hvort unnt sé að lækka opinber gjöld fyrir veitta þjónustu sveitarfélagsins.

Nýsköpun efld
Leita á leiða við að skapa störf í þjónustu og efla nýsköpun. Um er að ræða atvinnuátaksverkefni þar sem horft verði sérstaklega til starfstækifæra kvenna og erlendra íbúa í Vestmannaeyjum.

Hvatt verði til hvers kyns nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs með bættri aðstöðu fyrir fólk, sterkari innviðum og margvíslegri aðstoð, t.d. um vöru- og þjónustuþróun, fjármögnun verkefna og markaðsátaki.

Innlendir ferðamenn sóttir
Ráðist verði í markaðsátak fyrir ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Augum verði þá beint til innlendra ferðamanna næsta sumar.

Bæjarráð samþykkti tillögurnar og beindi því til fjölskyldu- og tómstundaráðs að skoða mögulegar heilsueflandi aðgerðir, þ.á.m. fræðslu og hvatningu til bæjarbúa, þar sem áhersla er lögð á þá hreyfingu og tómstundir sem íbúum stendur til boða í sveitarfélaginu margar hverjar án endurgjalds. „Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag eru streituvaldandi og hafa neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Mikilvægt er að sveitarfélagið taki jafnframt þátt í viðspyrnu gegn neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum faraldursins á samfélagið.“