Eitt smit hefur greinst til viðbótar í Vestmannaeyjum og eru staðfest smit því orðin 54. Aðilinn var ekki í sóttkví. Fjöldi einstaklinga sem hafa verið settir í sóttkví er orðinn 593 og hafa 136 lokið sóttkví. Niðurstaða hefur ekki borist vegna allra sýna sem send hafa verið til rannsóknar vegna tafa við vinnslu hjá LSH. Þrátt fyrir að staðfest smit séu fá síðustu daga megum við ekki sofna á verðinum og förum að öllu með gát.

Samkvæmt sóttvarnalækni er reiknað með að faraldurinn nái hámarki um miðjan apríl svo enn eigum við von á að greina fleiri smit í samfélaginu líkt og um allt land. Mikilvægi þess að fara að leiðbeiningum um sóttvarnir, sóttkví, einangrun, samkomubann, fjarlægðarmörk, takmarkað samneyti og að fólk haldi sig mest heima eru áréttaðar enda gríðarlega mikilvægt að farið sé að fyrirmælum þar til við erum komin vel yfir toppinn í smitum. Við erum núna stödd á viðkvæmum tíma og getum í sameiningu haft mikil áhrif á útbreiðslu sjúkdómsins í Vestmannaeyjum.

Förum gætilega og hlýðum Víði.

Aðgerðastjórn