Fjögur smit hafa bæst við í Vestmannaeyjum og eru staðfest smit á COVID-19 því orðin 63 talsins. Þrír af þessum fjórum voru í sóttkví. Fjöldi þeirra sem settir hafa verið í sóttkví er 605 og 238 hafa lokið sóttkví. Þremur er batnað. Enn eru tafir á vinnslu hjá LSH og því ekki hægt að rýna mikið í fjölda smita síðustu daga.

Að gefnu tilefni er upplýst að ástæða þess að tveir sjúkrabílar mæta oftast í útköll um þessar mundir er vegna verkferla í tengslum við sóttvarnir en ekki endilega alvarleika veikinda. Mikið af góðum upplýsingum vegna veirunnar eru inni á aðgengilegri vefsíðu landlæknis www.covid.is

Við Eyjamenn erum þrautseig og ætlum að halda þetta út. Förum eftir öllum reglum um sóttvarnir. Með því fækkum við smitum og verjum okkar viðkvæmasta fólk.
Aðgerðastjórn