Eftir því sem tíminn líður verðum við öll óþreyjufyllri að Covid-19 faraldurinn gangi yfir og að lífið geti haldið áfram sinn vanagang. Börn og fullorðnir þrá samvista með sínum nánustu, handabönd og faðmlög. Nú reynir á úthaldið og ekki má slá slöku við. Nú þegar hafa sex dauðsföll orðið af völdum Covid og 39 eru á sjúkrahúsi. Tæplega 1600 manns eru smitaðir og á fimmta þúsund er í sóttkví. Dánartíðni mun líklega hækka á Íslandi á næstu vikum, það hafa sérfræðingar sagt. Það er því ekki hægt að líta undan í þessu verkefni og við verðum öll að taka ábyrgð.

Lögreglan ábyrg fyrir aðgerðum
Það mæðir mikið á lögreglu sem ber hitann og þungan af öllum aðgerðum vegna Covid-19. Eyjafréttir ræddu við Páleyju Borgþórsdóttur aðgerðastjóra almannavarna nú í morgunsárið. „Lögreglumennirnir okkar eru flestir á fullu í þessu verkefni, ásamt hefðbundinni löggæslu auðvitað. Eins og allir vita er verkefnið stórt og mikið en okkur hefur tekist vel til. Samstarf hefur verið gott við alla aðila innan aðgerðastjórnarinnar og eiga samstarfsaðilar okkar skilið stórt hrós fyrir það hvernig leyst hefur verið úr þeim þáttum er að þeim snúa. Til að mynda hafa Hraunbúðir og skólarnir þurft að bregðast við breyttu vinnulagi og gert það alveg frábærlega.“

Sóttkví og einangrun
Um sóttkví og einangrun gilda strangar reglur. Að sögn Páleyjar hefur borið á því að lögreglan hafi fengið tilkynningar um einstaklinga sem eru að brjóta reglur um sóttkví og einangrun. “Lögreglan hefur það hlutverk að fylgja eftir reglum um samkomubann, sóttkví og einangrun þó það væri óskandi að þetta væri ekki á meðal verkefna. Ábendingar um brot á reglunum berast lögreglu og allar ábendingar eru skoðaðar. Stundum er um misskilning að ræða þegar fólk hefur til dæmis lokið sóttkví en það er enginn leið fyrir fólk að vita það og þess vegna beinum við því til fólks að tilkynna lögreglu ef grunur er um brot á reglunum.”
Að sögn Páleyjar eru páskarnir núna lykilatriði í baráttunni, “við verðum að stóla á að það séu allir að hlýða okkur og þríeykinu góða þeim Víði, Ölmu og Þórólfi og ferðast innanhús. Ef við hlýðum öll yfir páskana, þá er líklegra að við séum komin yfir erfiðasta hjallinn” segir Páley.

Þegar einstaklingar eru í sóttkví er eftirfarandi bannað:

  • Einstaklingur má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
  • Einstaklingur má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.
  • Einstaklingur má ekki nota almenningssamgöngur eða leigubíla.
  • Einstaklingur má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
  • Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né á staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.
  • Einstaklingur má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum, nema á leið inn og út.

Ber að beita sektum við brotum
Lágmarkssekt við því að brjóta reglur um einangrun er 150.000 kr., lágmarkssekt fyrir að brjóta reglur um sóttkví er 50.000 kr. og sektir fyrir að brjóta reglur um samkomubann eru frá 50.000 kr. til 500.000 kr.
Að sögn Páleyjar hefur enn enginn verið sektaður, en lögreglan er komin í startholurnar. “Okkur ber að fylgja þessum reglum eftir og þurfum að sjálfsögðu að taka ákvörðun varðandi sektir í þessum málum eins og öðrum. Auðvitað viljum við sekta sem fæsta, en þetta er dauðans alvara og mannslíf eru í húfi. Ég biðla til ykkar að fara eftir fyrirmælum, drýja þolinmæðina aðeins lengur, senda fingurkossa til vina og ættingja í hæfilegri fjarlægð og þá klárum við verkefnið í sameiningu,” segir Páley Borgþórsdóttir aðgerðarstjóri að lokum.