Í febrúar auglýsti fræðsluráð eftir umsóknum um styrki úr Þróunarsjóði leik- og grunnskóla en markmiðið með honum að styðja við þróunar- og nýsköpunarstarf leik- og grunnskóla. Fræðsluráð samþykkti síðan á 328. fundi ráðsins þann 31. mars sl. að veita styrki fyrir sex metnaðarfull og áhugaverð verkefni en heildarupphæð sem veitt er úr sjóðnum þetta árið er kr. 3.325.000

Verkefnin sem hljóta styrk úr sjóðnum endurspegla áherslur og markmið sjóðsins. Þau bera einnig vott um það gróskumikla starf sem fram fer í skólum sveitarfélagsins og það góða starf sem starfsmenn skólanna eru tilbúnir að inna af hendi til að auka gæði skólastarfs.

Styrkþegar eru:

  • Sverrir Marínó Jónsson fyrir verkefnið 360° Vestmannaeyjar. Ætlunin er að útbúa kennsluleiðbeiningar og 360° kynningar af ýmsum stöðum í Vestmannaeyjum og nýta í kennslu þar sem markmiðið er að nemendur kynnist nærumhverfi sínu.
  • Herdís Rós Njálsdóttir og Svanhvít Friðþjófsdóttir fyrir verkefnið Handbók og hugmyndir að markvissri kennslu í lesskilningi. Útbúin verður aðgengileg handbók fyrir miðstig með hugmyndum að lesskilningsverkefnum þar sem markmiðið er að efla lesskilning og auðvelda kennurum að vinna markvisst með lesskilning án þess að þeir þurfi að finna upp hjólið.
  • Thelma Ósk Sigurjónsdóttir fyrir verkefnið Útikennsla. Ætlunin er að koma upp útikennslurými á Sóla þar sem markmiðið er að efla útikennslu og auka möguleikann á því að færa hefðbunda innikennslu út.
  • Marta Jónsdóttir fyrir verkefnið Tónlistarkennsla og jógaiðkun. Gerðar verða kennsluleiðbeiningar og settar fram kennsluáætlanir í tónlistarkennslu og jógaiðkun þar sem markmiðið er að innleiða tónlist og jóga í leikskólann.
  • Unnur Líf Ingadóttir Imsland og Snjólaug Elín Árnadóttir fyrir verkefnið Út fyrir bókina. Haldið verður áfram að þróa námsefni fyrir 1.-6. bekk og útbúin netsíða þar sem hægt verður að nálgast verkefnin. Markmiðið er að efla lesskilning, orðaforða, hugtakaskilning og félagsfærni nemenda í íslensku, stærðfræði og samfélagsgreinum.
  • Marta Sigurjónsdóttir fyrir verkefnið Barnaorðabók, íslensk-pólsk, pólsk íslensk. Útbúin verður barnaorðabók sem hæfir börnum á grunn- og framhaldsskólastigi. Markmiðið er að barnaorðabókin nýtist nemendum af pólskum uppruna við nám sitt í íslensku sem öðru máli og stuðli að því að þeir geti eytt meiri tíma inni í bekk með samnemendum sínum og unnið sjálfstætt einstaklingsmiðuð verkefni í íslensku.