Félagasamtökin Hugarafl og Geðhjálp hafa í samvinnu við Heilbrigðisráðuneytið unnið að nýjungum á sviði ráðgjafar til félagsmanna sinna á tímum Covid 19 og eru nú að bjóða þjónustu út á landsbyggðina.

Vakin er athygli á því að fólk sem á við andlega vanlíðan og/eða geðræna erfiðleika að stríða getur fengið aðstoð í formi símtala, tölvupósta, netfunda og viðtala í gegnum netið. Hugarafl býður einnig upp á tenglaþjónustu fyrir sína skjólstæðinga og nýliða, en er einnig með opið streymi vikulega á facebook síðu sinni. Streymið fjallar um andlega líðan og bjargráð og það er hægt að horfa á streymið eftir á.  Á samskiptaforritinu Zoom er m.a. boðið upp á vinnusmiðjur um ýmis þemu, eins og skipulag vikunnar, bata, valdeflingu, sjálfsumhyggju og fleira. Nokkuð hefur verið um nýliða að undanförnu og taka liðsmenn Hugarafls og Geðhjálpar vel á móti þeim sem hafa samband og hefja stuðning.

Þeir sem vilja nota sér þessa þjónustu og/eða fá nánari upplýsingar geta haft samband við tengilið Vestmannaeyjabæjar við Hugarafl, Guðrúnu Jónsdóttur yfirfélagsráðgjafa Vestmannaeyjabæjar, í netfangi [email protected] eða síma 488 2000 (endilega látið taka skilaboð ef ekki næst í Guðrúnu þá stundina).

Þá getur fólk einnig sett sig beint í samband við Hugarafl (sjá vefsíðu þeirra hugarafl.is; sími 414 1550) og Geðhjálp(sjá vefsíðu þeirra gedhjalp.is ; sími 570 1700).

Vestmannaeyjabær fagnar þessu framtaki í fréttatilkynningu og hvetur einstaklinga sem geta hugsað sér að þiggja þessa þjónustu til að hafa samband.