Reglulega hafa borist fréttir af óeðlilegum fugladauða í fjörum í kringum Vestmannaeyjar. Náttúrustofu Suðurlands hafa borist fjöldi mynda og tilkynninga vegna þessa. Vegfarandi sem hafði samband við Eyjafréttir sagði töluvert magn af dauðum fugli í fjörunni undir Löngu. “Þetta var mest kollur og blikar en einnig mávar og ein stærðarinnar álft. Eitthvað að fuglunum hafði greinilega olíu á sér en með aðra var erfiðara að segja. Ég hef farið þarna reglulega og ekkert óeðlilegt við það að rekast á eitt og eitt hræ en 10-15 án þess að vera sérstaklega að leita að því er ansi ljótt.”

mynd: facebook-síða Náttúrustofa Suðurlands, sjá má olíumengun vestan við hafnargarðinn

Erpur Snær Hansen forstöðumaður hjá Náttúrustofu suðurlands í Vestmannaeyjum sagði málið bagalegt. Hann telur að olían eigi að einhverjum hluta uppruna sinn innan hafnar en vandamálið sé stærra. “Þessi mengun er líklega úr höfninni, ég týndi 15 dauða fugla úr fjörunni undir Flakkaranum 8. apríl, 10 þeirra voru olíublautir, allt æðarfuglar. Þetta er ekki eðlilegt, viðbragsleysi hafnaryfirvalda ekki heldur og fátítt að álftir leggist til hinstu hvílu í Löngu.” sagði Erpur.