Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í heimahöfn í gærmorgun og í kjölfarið var góðum afla landað úr systurskipinu Bergey VE. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey, og spurði hann hvernig veiðiferðin hefði gengið og einnig hvað hann vildi segja um vertíðina hingað til. „Það verður að segjast að þessi veiðiferð gekk vel. Við vorum um tvo sólarhringa á veiðum. Við hófum veiðar suður af Vík og síðan var haldið austur á Síðugrunn og í Skaftárdýpið. Aflinn var ágætur, fallegur þorskur og ýsa. Það er verið að loka ýmsum svæðum og páskalokanirnar hafa eðlilega áhrif á hvar veitt er. Við reiknum með að landa á ný á laugardag og síðan er gert ráð fyrir að fara á Selvogsbankann sem verður opnaður eftir helgina. Það verður að segjast að þetta er búin að vera ágætis vertíð þó tíðin hafi lengi verið leiðinleg. Brælurnar hafa gert það að verkum að túrarnir hafa oft verið heldur snaggaralegir. Skipin hafa ekki veitt á fullum afköstum að undanförnu vegna markaðsaðstæðna, en kórónafaraldurinn hefur haft mikil áhrif í þessu sambandi. Svo hefur öll áhersla verið lögð á að veiða þann fisk sem unnt er að losna við. Ýmsir markaðir fyrir ferskan fisk eru hreinlega lokaðir og aðrir taka við miklu minna magni en áður þannig að veiðarnar eru háðar afkastagetu vinnsluhúsa í landinu. Markaðsaðstæðurnar gera vertíðina sérkennilega að því leyti að það hefur ekki verið eins mikil sókn í svonefndar aukategundir og áður, segir Birgir Þór.

svn.is