„Sala frystra sjávarafurða í verslunum í Frakklandi hefur aukist um 108% frá því stjórnvöld settu á útgöngubann 17. mars 2020. Neytendur bregðast eðlilega við ástandinu með því að kaupa matvöru sem hægt er að geyma lengi og elda heima þegar veitingastaðir eru lokaðir.

Þá sjáum við það gerast í verslunum að fólk er hvatt til að kaupa franskar vörur til „styðja efnahagskerfi Frakklands á krepputímum“. Í sumum verslunum er meira að segja hætt að selja innfluttar vörur,“ segir Jeff Rivet, sölustjóri VSV France, markaðsfyrirtækis Vinnslustöðvarinnar í Frakklandi.

Frakkar hafa farið afar illa út úr veirufaraldrinum og eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem misst hafa hvað flesta hlutfallslega. Fjöldi látinna er um 18.000 í Frakklandi (17. apríl) eða sem svarar til 26 af hverjum 100.000 landsmanna. Hliðstætt hlutfall er 4,8 í Þýskaland og 2,4 á Íslandi.

Macron Frakklandsforseti tilkynnti eftir páska að útgöngubann í landinu yrði framlengt til 11. maí og þá eitthvað leyft sem bannað er nú. Þar er ekki síst horft til þess að liðka fyrir starfi í skólakerfinu.

Jeff Rivet telur nánast útilokað að veitingastöðum og veitingaþjónustufyrirtækjum verði heimilað að hefja rekstur á ný í maí og reyndar eru ýmsir á því að Frakkar þurfi að bíða fram í júlí eftir því að geta farið aftur á kaffihús og veitingastaði.

Vinnslustöðin selur áfram fisk til Frakklands, einkum karfa, en útflutningurinn hefur dregist heilmikið saman og var til dæmis helmingi minni í mars en í janúar 2020.

Á hafnarsvæðinu í Boulogne-sur-Mer liggur helmingur venjulegrar starfsemi niðri. Sjósókn er ekki svipur hjá sjón og fiskverð hrapar. Sömu sögu er að segja í öðrum frönskum höfnum.

Hamstrað í matinn í Þýskalandi

Ástand á fiskmarkaði í Þýskalandi er heldur ekki gott en samt skárra en í Frakklandi. Þar eru líka veitingastaðir lokaðir og veitingaþjónusta hefur sömuleiðis lagst af í bili en í verslunum seljast bæði ferskar og frystar sjávarafurðir. Og í upphafi samkomubanns í Þýskalandi var áberandi að fólk hamstraði matvöru til að eiga á lager og elda heima, þar á meðal fisk.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, átti eftir páska símafund með leiðtogum þýsku sambandsríkjanna sextán til að ræða hvenær og hvernig slaka ætti á gildandi samkomubanni.

„Breytingarnar sem boðaðar voru eftir fundinn voru þær að hefja starf í skólum á ný 4. maí og verslunum verður um sama leyti heimilað að hafa starfsemi á allt að 800 fermetra gólfplássi.

Veitingahús verða lokuð áfram og reyndar er ekkert vitað um hvenær rekstur þar verður heimilaður. Ætla má að í fyrstu verði veitingarekstur heimilaður með ströngum skilyrðum, hvenær svo sem það  gerist.

Mér þótti reyndar athyglisvert að heyra að opna mætti á ný hársnyrtistofur í byrjun maí. Það kemur sér út af fyrir sig vel fyrir mig sem þarf á slíkri þjónustu að halda en merkileg forgangsröðun samt!

Sjávarafurðir frá Íslandi eru og verða eftirsóttur, sama á hverju sem gengur. Sjálfbærar veiðar og góður fiskur er sá grunnur sem við byggjum markaðsstarfið á.“

Þetta segir Heiko Frisch, sölustjóri Vinnslustöðvarinnar í Þýskalandi. Hann hefur aðsetur í Bremerhaven þar sem er stærsta fiskiskipahöfn Þýskalands. Önnur sjávar- og hafnartengd þjónustustarfsemi er þar blómleg eftir því eða ætti öllu heldur að vera það. Nú um stundir hefur veiran covid 19 hins vegar lamað atvinnulíf og mannlíf í Bremerhaven líkt og annars staðar.

Heimiliskokkum fjölgar og við lögum okkur að því

„Ástand á markaðssvæðum okkar er hvergi fullkomlega eðlilegt en talsvert mismunandi. Í Frakklandi og Þýskalandi er skyggni lítið og hlutir breytast jafnvel frá degi til dags. Þegar ríkir samkomubann, hvað þá útgöngubann, segir sig sjálft að svigrúm til athafna í viðskiptum er þröngt. Þá er ekki annað að gera en þreyja þorrann og góuna,“ segir Björn  Matthíasson, framkvæmdastjóri VSV Seafood Iceland, sölufyrirtækis Vinnslustöðvarinnar.

„Það er mikilvægt nú sem fyrr að eiga gott og virkt samtal við viðskiptavini á helstu mörkuðum til að skilja þarfir þeirra. Með því móti getum við breytt áherslum í veiðum og vinnslu eftir þörfum.

Á þessum veirutímum er líka áríðandi að halda sambandi við alla þá markaði sem við höfum verið að vinna á. Við getum nefnilega lent í því að sumir markaðir hreinlega lokist snögglega og þá er gott að hafa ekki öll egg í sömu körfu.

Nokkuð ljóst er að heimurinn mun nú að eignast fjölda nýrra „áhugakokka“ vegna þess að veitingastaðir víða um heim eru lokaðir og mun fleiri en áður spreyta sig í eigin eldhúsum. Margir komast upp á lag með eldamennsku og hafa gaman af.

Við skulum gera ráð fyrir því að ýmsir haldi áfram að elda heima að veirufaraldri loknum. Seljendur og dreifendur íslensks sjávarfangs verða að laga sig að því og sjá til þess að fiskurinn okkar eigi líka greiðan aðgang að eldhúsum allra „nýju kokkanna“ sem uppgötvuðu hjá sér áður óþekkta hæfileika í eldamennsku þegar ríkti útgöngu- eða samkomubann í samfélagi þeirra.“