Á fundi bæjarráðs í gær fór bæjarstjóri yfir bréf Magnúsar Sigurðssonar, f.h. Steina og Olla um stöðu framkvæmda við byggingu íbúða fyrir fatlaða við Strandveg 26. Vegna tíðarfars í vetur hefur uppsteypu hússins seinkað og vegna sóttkvíar starfsfólks fyrirtækisins í vor er ljóst að enn frekari seinkun verður á afhendingu hússins sem átti að afhendast í lok mars samkvæmt samningi. Áætluð afhending á umsömdu framkvæmdastigi er nú áætluð í ágúst eða september. Þá á eftir að innrétta íbúðirnar.

Bæjarráð þakkaði upplýsingarnar og lýsir áhyggjum af seinkuninni. Mikilvægt er að fyrirtækið leggi allt kapp á að ljúka við framkvæmdir hið fyrsta svo hægt sé að halda áfram með verkið og íbúar geti flutt inn sem fyrst.