Mikið verðfall hefur orðið á fiskmörkuðum að undanförnu. Endurspeglar þetta sölutregðu á sjávarafurðum um allan heim. Gengi evru gagnvart krónu hefur hækkað um 15% frá því í september sem hefði að óbreyttu átt að leiða til verðhækkana. En svo virðist sem önnur lögmál ráði eins og almennur sölusamdráttur vegna heimsfaraldursins.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssamband smábátaeigenda, segir það mikið áhyggjuefni hvernig verðþróun á fiskmörkuðum hefur verið síðustu daga.

„Við erum að sjá að verð er komið allt niður að 200 krónum á kílóið á óslægðum þorski sem veiddur er á handfæri. Verðið 26.-28. apríl var 209 krónur en á sama tíma á síðasta ári var það 283 krónur. Þetta er lækkun upp á 25% og við þetta bætist umtalsverð gengislækkun sem hefði átt að skila sér í hærra verði. Þessi verðlækkun er því sláandi,“ segir Örn.

Strandveiðin að hefjast

Landssambandið hefur farið þess á leit við stjórnvöld að strandveiðitímabilið verði lengt vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Menn hafi séð fram á það að fiskverð gæti lækkað vegna aðstæðna út um allan heim. Það sem hafi bæst við núna séu verulegar áhyggjur sjómanna af því að geta einfaldlega selt aflann.

„Strandveiðar hefjast núna 4. maí. Þá fara hundruðir báta á sjó og framboð af fiski eykst verulega. Ég hef umtalsverðar áhyggjur af því hvernig málum reiði fram á fiskmörkuðum. Við höfum farið þess á leit við stjórnvöld að lögum verði breytt í þá veru að 48 dagar verði tryggðir og gefinn yrði kostur á því að dreifa þeim yfir lengra tímabil í ljósi aðstæðna. Menn telja reyndar óraunhæft nú að tímaramminn verði lengdur yfir tólf mánaða tímabil. En okkur þætti raunhæft að leyfa veiðarnar út september og byrja í apríl og bæta jafnframt sunnudögum við þá fjóra virku daga sem heimilt er að róa. Með þessu móti myndast svigrúm fyrir strandveiðimenn að ap bregðast við aðstæðum sem upp kunna að koma.“

Örn segir að þrátt fyrir umtalsverða lækkun á fiskverði sjái hann fyrir sér að strandveiðar standi undir sér meðan fiskverðið er þó ennþá yfir 200 krónum. Ómögulegt sé hins vegar að spá fyrir um verðþróunina til næstu vikna og mánaða.fiskifréttir greindu frá