Sigurgeir B. Kristgeirsson, Binni í Vinnslustöðinni gefur lítið fyrir slúðurklausu, í nýjasta tölublaðs Mannlífs, um samstarfið í stjórn Vinnslustöðvarinnar. Binni svarar því til að slúður dæmi sig oftast sjálft og sé sjaldan svaravert. Höfundur þessarar slúðursögu verðskuldi hins vegar athugasemd af sinni hálfu.

„Ritstjóri Mannlífs og höfundur klausunnar er Reynir Traustason, sá er áður ritstýrði DV. Hann neyddist á sínum tíma til að viðurkenna opinberlega að hafa fengið að láni 15 milljónir króna hjá Guðmundi Kristjánssyni í Brimi til að kaupa hlutabréf í útgáfufélagi DV. Ég neita því ekki að þá skildi ég mun betur en áður ýmis skrif DV, meðal annars um átökin í hluthafahópi Vinnslustöðvarinnar.  Fyrst voru birtir í DV afar neikvæðir pistlar um Guðmund Kristjánsson og Brim. Síðan hurfu þeir af síðum blaðsins og DV fór að fjalla um átök innan Vinnslustöðvarinnar og síðar um félagið sjálft.”

Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta rifjar Binni einnig upp samskipti Elliða Vignissonar um þessi lánamál við þá Reyni og Guðmund. Þá gerir Binni grein fyrir samskiptum sínum við Þórólf Gíslason. “Eftir kaup Kaupfélags Skagfirðinga á hlut í Vinnslustöðinni hef ég kynnst Þórólfi og kynni mín af honum eru einstaklega góð. Þar fer reynslumikill og yfirvegaður maður sem er afskaplega þægilegt að ræða við. Menn geta samt haft mismunandi skoðanir og mismunandi sýn á viðfangsefnin en unnið samt vel saman.”

Nánar í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.