Sr. Guðmundur Örn Jónsson

Daglegt líf barna er þessa dagana smá saman að detta í nokkuð eðlilegt horf. Fullur skóladagur og íþróttaæfingar hafnar að nýju. Barnastarf Landakirkju fer hins vegar ekki af stað aftur nú í vor, enda hefði því lokið formlega með vorhátíð 26. apríl síðastliðinn. „Okkur þykir eiginlega ekki passa að setja af stað einhverja viðburði þar sem við værum að hvetja til þess að margir kæmu saman, enda er það, jú, venjan á Vorhátíðinni að hverju barni fylgi a.m.k. einn fullorðinn ef ekki tveir og þar með værum við búnir að sprengja 50 manna múrinn og brjóta tveggja metra regluna,“ sagði sr. Guðmundur Örn Jónsson í samtali við Eyjafréttir.

Áfram takmarkanir við útfarir
Tilslökun samkomubanns í 50 manns hefur lítil sem engin áhrif á starf kirkjunnar. „Útfarir munu fara fram með þessum takmörkunum og eins og er þá reiknum við með að þær verði með sama eða svipuðum hætti og verið hefur, þ.e. að um allra nánustu fjölskyldu verði að ræða sem eru viðstödd útför, en streymt verður frá útförum eins og verið hefur,“ sagði Guðmundur.

Útimessur í sumar
„Enn sem komið er þá megum við ekki hafa almennar messur og ég veit að prestar eru að setjast yfir það hvernig formið yrði á því þegar við megum fara að messa.  50 manna hámark og tveggja metra reglan sníða okkur svolítið þröngan stakk í þeim efnum og auðvitað getur verið svolíitið erfitt að stefna fólki saman í lítil rými, eins og forkirkjan t.d. er, en þar safnast fólk jú oft saman við upphaf messu.  Ég sé það svolítið fyrir mér að fyrst um sinn verði um helgihald utandyra að ræða með einhverjum hætti, en við sr. Viðar eigum eftir að leggjst frekar yfir þessi mál ásamt öðrum prestum landsins.“

Fermingar í ágúst/september
Varðandi fermingar, sem með áttu með réttu að fara fram í byrjun apríl, sagði Guðmundur þær áætlaðar seinni hluta ágústmánaðar og fyrri hluta september. „Enn eigum við eftir að sjá hvernig þróunin verður með fjöldann, en það er ljóst að það verður fámennt í kirkjunni ef tveggja metra reglan verður enn við líði.
Enn eigum við prestar eftir að fá einhver tilmæli varðandi skírnir, en það er jú nokkuð ljóst að varðandi þær getur verið erfitt að viðhalda tveggja metra reglunni, nema með einhverjum stórkostlegum tilfæringum og framlengingu handleggja allra aðila sem þar koma að.“
Guðmundur sagði mikilvægt að kirkjan vandi sig við að fylgja tilsettum reglum. „Það er, jú, horft til hennar í ýmsum málum og kannski ekki síst ef menn misstíga sig innan kirkjunnar. Þess vegna held ég að fólk fari almennt varlega til þess að láta ekki „nappa“ sig varðandi þær reglur og þau tilmæli sem gefin hafa verið út.“