Endurskoðaðar samþykktir Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf voru til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Lögð voru fyrir bæjarráð drög að endurskoðuðum samþykktum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. sem unnin voru að frumkvæði bæjarstjóra. Meginbreytingin sem lögð er til snýst um aukna og formfastari aðkomu bæjarstjórnar að skipun stjórnar. Aðrar breytingar taka mið af því að samþykktirnar endurspegli ákvæði núgildandi laga auk annarra minniháttar orðalagsbreytinga sem ekki fela í sér efnislegar breytingar, en gera efni samþykktanna skýrara. Þá er lagt til að ákvæði sem ekki er sérstök þörf á verði felld út.

Í niðurstötðu þakkar bæjarráð greinargóðar upplýsingar og lýsir ánægju með uppfærðar samþykktir Herjólfs ohf. Mikilvægt er að samþykktir félagsins tryggi lýðræðislega skipun stjórnar með aðkomu bæjarstjórnar, en ekki einungis bæjarstjóra, líkt og gert var ráð fyrir við stofnun félagsins.

Fagnar sameiginlegum skilningi á lýðræðislegri skipan
Fulltrúi D-lista bókaði að þessu tilefni “Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar því að skilningur allra bæjarfulltrúa á eðlilegri lýðræðislegri skipan stjórnar Herjólfs ohf. með umboði bæjarstjórnar verður nú loks sameiginlegur. Í tvígang hefur meirihluti H- og E- lista gengið fram með ólýðræðislegum hætti við stjórnarkjör Herjólfs ohf., einu stærsta B-hluta félagi sveitarfélagsins án aðkomu bæjarstjórnar.”

Óskandi að sjálfstæðismenn kæmu af heilindum að gera stjórnsýsluna lýðræðislegri
Fulltrúar H- og E-lista fylgdu því eftir með bókun. “Tvisvar á kjörtímabilinu hefur verið skipað í stjórn Herjólfs ohf. á grundvelli þágildandi samþykkta og var í bæði skiptin skipað eftir tilnefningum allra framboða í bæjarstjórn, þar á meðal sjálfstæðisflokksins. Verklagið var á sínum tíma staðfest rétt í lögfræðiáliti lögmanns bæjarins. Meirihluti E- og H- lista hefur markvisst unnið að því að gera stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar lýðræðislegri og mun halda því áfram. Óskandi væri að sjálfstæðismenn kæmu af heilindum með í þá vegferð.”

Breytingar í takt við túlkun og óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins
Málinu lauk með bókun frá fulltrúa D-lista. “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa alla tíð talið eðlilegt að lýðræðisleg skipan stjórnar Herjólfs ohf. eigi að fara fram á fundi bæjarstjórnar rétt eins og gert var við stofnun félagsins. Þrátt fyrir lögfræðiálit í vörnum meirihlutans finnur hann sig þó knúinn til að breyta samþykktunum í takt við túlkun og óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það er ánægjulegt.”