Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við HR og Háskólann í Þrándheimi, hefur óskað eftir samstarfi við GRV og Vestmannaeyjabæ um að framkvæma viðamikla menntarannsókn til 12 ára. Þetta yrði samanburðarrannsókn við skóla í öðrum landshluta og henni fylgja breyttar áherslur í námi nemenda sem og breyttir kennsluhættir. Miðað væri við að byrja rannsóknina strax í 1. bekk haustið 2021 og fylgja þeim árgangi út skólagöngu. Fræðslufulltrúi og skólastjóri GRV kynntu verkefnið fyrir fræðsluráði í vikunni.

Hermundur hefur lengi bent á dvínandi lestrarfærni íslenska barna og þá sérstaklega drengja. Segir hann að ofuráhersla á leshraða í stað lesskilnings, eins og verið hefur á Íslandi, sé ekki til þess fallið að bæta lestrarfærni nemenda og hefur hann vísað í fjölda rannsókna því til stuðnings. Hann leggur mikla áherslu á þjálfun lestrarfærni í upphafi skólagöngu og að nám nemenda fyrstu tvö árin eigi aðaláherslan að vera á lestur þannig að við lok 2. bekkjar séu 95% nemenda fullæs.

Hermundur hefur einnig bent á að á sama tíma hefur átt sér stað gífurleg aukning hjá börnum og ungmennum á notkun tauga- og geðlyfja á Íslandi og skv. rannsóknum og hans mati ætti að hefja hvern skóladag með hreyfingu til að draga úr þessari þróun.

Skólastjóri og fræðslufulltrúi lýsa yfir áhuga á að taka þátt í þessari rannsókn enda einstakt tækifæri fyrir GRV og Vestmannaeyjar að vera leiðandi í menntarannsóknum á Íslandi. Þá er það von okkar og trú að slík rannsókn og þær áherslurbreytingar sem henni fylgja eigi eftir að styrkja nemendur og bæta árangur og skólastarfið til muna.