Bæjarstjóri kynnti fyrir bæjarráði á fundi þess í dag, drög að samkomulagi milli Vestmannaeyjabæjar og Íslandsbanka um kaup á húsnæði bankans við Kirkjuveg, sem hugsuð yrðu sem starfsaðstaða fyrir hluta af starfsemi bæjarskrifstofa Vestmannaeyja. Málið verður tekið til afgreiðslu á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður þann 28. maí nk. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Upplýsingaskortur, stefnubreyting og óábyrg meðferð almannafjármuna
Fulltrúi D- lista bókaði þá eftirfarandi: Undirrituð gagnrýnir skort á upplýsingagjöf til bæjarfulltrúa vegna yfirvofandi mögulegra kaupa og stefnubreytingar í húsnæðismálum sveitarfélagsins. Öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið kynnt nýting á húsnæðinu, hver kostnaður við breytingar og endurbætur á húsnæðinu muni verða né framtíðarrekstrarkostnaður.
Nú þegar er búið að að verja fimm milljónum til hönnunar á húsnæði á þriðju hæð Fiskiðjunnar til að öll starfsemi bæjarskrifstofa Vestmannaeyjabæjar gæti sameinast undir einu þaki en slíkt felur í sér tækifæri til rekstrarhagræðingar, samþættingar og styttri boðleiða milli starfsfólks.
Ljóst er að húsnæði Íslandsbanka nægir ekki fyrir alla ofangreinda starfsemi en upplýst var á fundinum að áætlað er að fjölskyldu- og fræðslusvið flytji starfsemi sína í húsnæði Íslandsbanka en í dag standa yfir kostnaðarsamar framkvæmdir vegna breytinga á skrifstofuhúsnæði þeirra sviða í núverandi húsnæði á Rauðagerði. Slíkt er óábyrg meðferð almannafjármuna líkt og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áður bent á. Vestmannaeyjabær á og rekur mikinn fjölda eigna sem er kostnaðarsamur í rekstri og viðhaldi. Mikið væri unnið með því að draga úr kostnaðarsömu eignarhaldi Vestmannaeyjabæjar á fjölda fasteigna í stað þess að auka það.

Aðstaða starfsfólks og viðskiptavina til fyrirmyndar
Fulltrúar H og E lista svöruðu með bókun: Í umræðum í bæjarráði kom fram að bæjarstjóri mun fyrir fund bæjarstjórnar n.k. fimmtudag leggja fyrir minnisblað um þá valkosti sem eru um framtíðarskipulag húsnæðis stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar, m.a. að nýta 1. hæð húss Íslandsbanka og eldhúsaðstöðu á 2. hæðinni fyrir hluta af starfsemi bæjarskrifstofa sem og fræðslu- og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar. Með því verður öll aðstaða starfsfólks og viðskiptavina til fyrirmyndar. Aðgengi að húsnæðinu er gott og verður starfsmannarými aðlagað að þörfum starfseminnar.