Staða Hraunbúða var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær, bæjarráð samþykkti samhljóða að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðherra um að bærinn muni ekki óska eftir framlengingu á rekstrarsamningi milli SÍ og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða. Bæjarstjóra er falið að koma þeim upplýsingum til ráðherra eftir fund bæjarstjórnarþann 28. maí nk.

Þar kom einnig fram að frá árinu 2010 hefur Vestmannaeyjabær greitt rúmlega 500 m.kr. með rekstri Hraunbúða, sem lögum skv. ríkið ber ábyrgð á og ríkissjóður á að greiða fyrir. Kröfur ríkisins til þjónustunnar hafa aukist mikið undanfarin ár, en framlög til starfseminnar staðið í stað. Við þetta verður ekki unað og ósanngjarnt að skattgreiðendur í Vestmannaeyjum greiði fyrir þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á.

Fyrirhugaður er fundur bæjarráðs og heilbrigðisráðherra um málefni Hraunbúða. Gert er ráð fyrir að fundað verði í byrjun júní.

Fellur úr gildi í Nóvember
Samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða fellur úr gildi í nóvember 2020. Endurnýjunarákvæði eru í samningnum sem heimila að framlengja honum um eitt ár í senn. Tilkynna verður um hvort samningurinn verði endurnýjaður fyrir 4. júní nk.

Það er von bæjarráðs að þegar Sjúkratryggingar Íslands taka yfir rekstur Hraunbúða næsta vetur, verði tryggt að þjónustan skerðist ekki frá því sem nú er.