Hljómsveitin Eyjasynir var stofnuð í lok síðasta árs en stofnendur eru þeir Daníel Franz Davíðsson, Arnþór Ingi Pálsson, Bogi Matt Harðarson og Einar Örn Valsson. Seinna bættust svo við þau Eldur Antoníus Hansen og Elísa Elíasdóttir. Krakkarnir stefna á útgáfu á fjórum lögum á næstu vikum það fyrsta kemur út föstudaginn 29. maí.

Við höfðum samband við Daníel Franz og spurðum hann út í lagið og ferlið. „Þetta hefur gengið eins og smurð vél.  Ég fékk þetta lag í hausinn á mér í nóvember í fyrra og hef verið að vinna í því síðan. En var alltaf í vandræðum með textann, þangað til ég var á labbinu upp á Heimaklett í Covid og sá ljóðið sem er á gestabókinni þar uppi. Frábært ljóð Eftir Kollu Vatnsdal í Kollukoti, og það passaði fullkomlega við melodíuna í laginu.  Svo á leiðinni niður kom viðlagið í hausinn á mér og svo leiddi eitt af öðru.  Skemmtilegt að segja að Kolla vissi ekki einusinni af því að ljóðið hennar hafi verið þarna uppi. Þann 9. maí vorum við  komnir í stúdíóið hjá honum Arnari Júlíusson í gamla Geisla að taka það upp ásamt fjórum öðrum lögum.“

Lagði heitir Heimaklettur eftir ljóðinu hennar Kollu en hvernig lag er þetta? „Ef ég á að segja alveg eins og það er þá hreinlega er ég ekki viss.  Það er rólegt, en samt ekki.  Dass af country fíling í því, algjört eyjalag sem allir Eyjamenn geta hlustað á og aðrir.  En þeir sem hlusta á það verða bara að meta það sjálfir. Fram undan er mikið að gera hjá okkur Eyjasonum.  Fyrir utan föstudaginn þá koma næstu 3 föstudaga út lög frá okkur, þannig að það koma 4 lög út frá okkur næsta mánuð.  Svo er það árshátíð GRV í byrjun júní og svo spilum við í messu 28. júní og margt fleira,“ sagði Daníel Franz hress að lokum.