Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur tryggt almenningssamgöngur milli byggða með auknum fjárveitingum. Aukinn stuðningur er nauðsynlegur til að bæta rekstraraðilum almenningssamgangna upp tekjutap í kjölfar Covid-19 faraldursins. Stuðningurinn nær til þjónustu sem nýtur þegar styrkja frá ríkinu, en um er að ræða meðal annars siglingar Herjólfs, flug Ernis og Norlandair og akstur almenningsvagna milli byggða. Einnig verður Isavia bætt tekjutap á innanlandsflugvöllum og ferðir Baldurs um Breiðafjörð tryggðar í sumar.

Arnar Pétursson stjórnarformaður Herjólfs OHF greindi frá því á aðalfundi félagsins í gærkvöldi að félagið fengi allt að 260 milljónir úr þessari aukafjárveitingu. Fram kom í máli Arnars að sértekjur félagsins fyrir árið hafi upphaflega verið áætlaðar um 700 milljónir en stefni nú í að vera á bilinu 200-300 milljónir króna.