Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar á fimmtudag. Bæjarstjóri lagði fram minnisblað frá framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs um nokkra valkosti við húsnæðismál bæjarskrifstofa Vestmannaeyja, þ.e. stjórnsýslu- og fjármálasvið, umhverfis- og framkvæmdasvið og fjölskyldu- og fræðslusvið. Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 26. september sl., voru húsnæðismálin til umræðu þar sem samþykkt var tillaga um að bæjarstjóri legði fram minnisblað varðandi ramtíðarstaðsetningu bæjarskrifstofanna á næsta bæjarstjórnafundi. Á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn var þann 31. október sl., var lagt fram minnisblað. Bæjarstjórn samþykkti að færa hluta af bæjarskrifstofunum, stjórnsýslu og fjármálasviði, í gamla Ráðhúsið. Á saman fundi var ákveðið að hætta við áform um flutninga bæjarskrifstofanna á 3. hæð Fiskiðjuhússins og leita annarra leiða um nýtingu þess, skýrsla um mögulega starfsemi á 3. hæðinni liggur nú fyrir. Þá var ákveðið að kanna möguleika á starfsemi annarra sviða í grennd við gamla Ráðhúsið. Í minnisblaðinu sem nú liggur fyrir eru reifaðir nokkrir valkostir tengdir því.

Frestað til frekari kynningar
Meirihluti E- og H-lista leggur til að umræðu og afgreiðslu húsnæðismála
Vestmannaeyjabæjar verði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar, þann 11. júní nk.,
til þess að gefa bæjarfulltrúum kost á að kynna sér vel efni minnisblaðsins sem lagt
var fram og funda óformlega um þá valkosti sem þar eru kynntir. Einnig að gefa
tækifæri á að kynna kostina starfsmönnum áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Fagna frestun
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að lagt sé til að málinu sé frestað enda liggja ekki nægjanleg gögn fyrir til að hægt sé að taka ábyrga ákvörðun í málinu.
Tillaga H- og E-lista um að fresta afgreiðslu málsins til næsta bæjarstjórnarfundar þann 11 júní nk. var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:
Af gefnu tilefni vill undirrituð ítreka að skoðanafrelsi starfsmanna sé virt.

Íris Róbertsdóttir kom upp og bar af sér ávirðingar.