Fasteignamat 2021 hækkar um 2,1%

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 2,1% frá yfirstandandi ári og verður 9.429 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2021. Þetta er umtalsvert minni hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 6,1% á landinu öllu.

Hækkar um 3% í Eyjum

Fasteignaverð í Vestmannaeyjum hækkaði um 3% milli tímabila. Breyting frá 2020 á sérbýli nam 3,50% en breyting á fjölbýli var 2,20%. Meðalverð á m2 fyrir sérbýli var því 205.000 kr. En 221.000 kr. á m2 fyrir fjölbýli.

Gervigreind notuð til auka nákvæmni

„Að endurmeta yfir 200 þúsund fasteignir árlega er eitt stærsta verkefni Þjóðskrár Íslands. Á hverju ári fer mikil vinna í að bæta okkar aðferðir og nýta nýjustu tækni til að styðja við útreikninga fasteignamats. Að þessu sinni hefur meðal annars gervigreind verið hagnýtt við matið sem styrkir þær aðferðir sem unnið er eftir og eykur nákvæmni í okkar vinnu.

Í ár höfum við einnig lagt mikla vinnu í að koma upplýsingum um matið á www.skra.is á aðgengilegri og notendavænni hátt en áður. Þannig er hægt að sjá breytingu á milli ára bæði fyrir einstakar eignir sem og sveitarfélög, landshluta og tegundir eigna. Með þessu getum við bæði komið upplýsingum á framfæri til sérfræðinga sem og þeirra sem vilja kanna þróun fasteignamats á sínum eigin eignum. Um miðjan júní munu svo allir fasteignaeigendur fá tilkynningu um nýtt fasteignamat sem gildir fyrir árið 2021 í pósthólfið sitt á Ísland.is,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands. Hún segir litlar breytingar að þessu sinni miðað við undangengin ár. „Það ætti ekki að koma á óvart að þegar dregur úr verðhækkunum á fasteignamarkaði þá eru breytingar á fasteignamati í takt við þá þróun,“ segir Margrét um breytingar á milli ára.

 

Mest hækkun á Vestfjörðum

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 2,2% en um 1,9% á landsbyggðinni. Þar af er mest hækkun á Vestfjörðum eða 8,2%, um 6,5% á Norðurlandi vestra, 3,5% á Austurlandi og um 2,2% á Suðurlandi, 1,9% á Norðurlandi eystra, um 0,4% á Vesturlandi, og lækkun um 0,5% á Suðurnesjum.

Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Ísafirði eða um 11,2%, um 8,8% í í Akrahreppi og 8,5% í Tálknafjarðarhreppi og á Blönduósi. Mest lækkun er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamatið lækkar um 3,6%.

Almennt eru litlar breytingar á aðferðarfræði fasteignamats á milli ára. Aðferð við lóðarmat var endurskoðuð auk þess sem hætt er að að nota sérstaka matsaðferð á búgarða. Einnig er verið að endurskoða hlunnindamat jarða og færa það til nútímahorfs. Að öðru leyti er helsta breytingin hagnýting á gervigreind sem styrkir núverandi aðferðarfræði og líkanagerð við fasteignamat.

 

Bætt framsetning á vef

Á vef Þjóðskrár Íslands www.skra.is má fletta upp breytingum á fasteignamati milli ára auk þess sem aukin áhersla hefur verið lögð á myndræna og notendavæna framsetningu á nýju fasteignamati. Þannig geta eigendur fasteigna og aðrir bæði kynnt sér breytingar á einstökum eignum sem og þróun á milli ára eftir landsvæðum og mismunandi tegundum eigna. Upplýsingar um breytingar á fasteignamati eru nú settar fram á kortagrunni en auk þess hefur verið þróuð ný vefsjá fyrir matssvæði íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og atvinnuhúsnæðis sem sýnir staðsetningu matssvæða og breytingar á milli ára.

 

Íbúðarmat hækkar mest í Akrahreppi

Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 2,3% á milli ára og verður alls 6.511 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 2,2% á meðan fjölbýli hækkar um 2,4%. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 2,4% en 2,1% á landsbyggðinni.

Fasteignamat íbúða hækkar mest í Akrahreppi en þar hækkar íbúðarmatið um 17,8%, á Ísafirði um 15,5% og í sveitarfélaginu Ölfusi um 15,2%. Mestu lækkanir á íbúðamati eru í sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 5,2%, Í Vopnafjarðarhreppi lækkar matið um 3,6% og í Reykjanesbæ þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 3,3%.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 1,7% á landinu öllu; um 1,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 1,9% á landsbyggðinni.

 

Breyting fasteignamats Sérbýli fjölbýli atvinnuhúsnæði
Höfuðborgarsvæði 1,7% 3,0% 1,6%
Landsbyggð 3,3% 2,0% 1,9%
Landið allt 2,2% 2,4% 1,7%

 

Fasteignamat sumarhúsa nær óbreytt

Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2021 stendur nánast í stað á milli ára þegar litið er á landið í heild en hækkar að meðaltali um 0,1%. Fasteignamat sumarhúsa hækkar mest í sveitarfélaginu Ölfusi eða um 7,7% og um 6,8% í Ásahreppi. Mesta lækkun á fasteignamati sumarhúsa er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem matið lækkar um 4,3% á milli ára.