Það er óhætt að segja að lífið í Vestmannaeyjum sé að færast í eðlilegra horf með hækkandi sól eftir erfiðan vetur. Það má best merkja á líf hefur færst yfir bæinn með auknum gestkomum og líflegum samkomum. Ein slík fór fram í Höllinni á sunnudagskvöld þegar tónlistarmennirnir KK og Mugison héldu vel heppnaða tónleika fyrir fullu húsi. Augljóst var að skemmtanaþyrstir Eyjamenn tóku þessum gestum fagnandi því uppselt var á viðburðinn í forsölu sem er ekki daglegt brauð í Vestmannaeyjum.

Ekki þarf að fjölyrða um sigra KK & Mugison enda hafa þeir báðir átt stórglæsilega sólóferla ásamt því að hafa unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með söngperlum sem hvert einasta mannsbarn þekkir. Það varð enginn svikinn af þeim félögum í Höllinni og létu tónleikagestir vel af samkomunni.