Lokahóf handknattleiksdeildar fór fram í kvöld. Þar voru venju samkvæmt veittar viðurkenningar fyrir árangur vetrarins. Rúmlega þrjátíu ára hefð er fyrir því að Eyjafréttir veiti viðurkenningu til efnilegustu leikmanna í karla og kvenna flokki. En það voru þau þau Bríet Ómarsdóttir og Arnór Viðarsson sem hlutu Fréttabikarinn í ár. Nánar verður gerð grein fyrir öðrum verðlaunahöfum síðar.

Bríet Ómarsdóttir

Bríet er 18 ára línumaður. Hún byrjaði ung að leika handbolta og var strax kraftmikill leikmaður. Til að byrja með lék hún í stöðu skyttu, en þegar komið var í 5. flokk færði hún sig yfir á línu og hefur að mestu haldið sig á línunni síðan þá. Bríet á að baki fimm Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum.

Hún hóf sinn meistaraflokksferill 2018 aðeins 15 ára gömul. Bríet er mikill keppnismaður og gerir allt til þess að vinna. Um leið er hún góður liðsfélagi sem berst fyrir sínu liði hvort það er í vörn eða sókn. Bríet spilaði 19 leiki í deild og bikar með aðalliði ÍBV í vetur og skoraði í þeim 21 mark.

Það er alltaf stuð í kringum Bríeti og hafa liðsfélagar og þjálfarar gaman að æsa hana upp og djóka í henni þar sem hún jafnan fljót að svarar alltaf fyrir sig. Bríet er með góðan metnað og ef hún heldur áfram á réttri braut á hún framtíðina fyrir sér í handbolta.

Arnór Viðarsson

Arnór er 18 ára vinstri skytta og varnarmaður. Arnór hóf sinn meistaraflokks feril tímabilið 2018/2019. En hefur verið í ört vaxandi hlutverki innan liðsins síðan þá. Arnór er í dag mikilvægur hlekkur í varnarleik liðsins. Það sýndi sig best þegar honum var hent út í djúpu laugina um úrslitahelgi Coka-cola bikarsins fyrr í vetur. Þar lék Arnór stórt hlutverk varnarlega og leysti það vel úr hendi. Arnór er auk þess góður liðsfélagi og berst um alla bolta, það er öfundsvert hlutverk að standa við hliðina á honum í vörn.

Þessi vöxtur Arnórs er engin tilviljun, Arnór er gríðarlega duglegur leikmaður og æfir vel og mikið. Arnór hefur tekið hressilega til hendinni í Covid-pásunni og það verður spennandi að fylgjast með Arnóri á næsta tímabili.