Móttökuáætlun leikskóla fyrir börn með fleiri en eitt tungumál lögð fram til kynningar á fundi fræðsluráðs í síðustu viku. Skólaskrifstofan hefur, í samvinnu við stjórnendur leikskóla, unnið að móttökuáætlun fyrir börn með fleiri en eitt tungumál en það eru börn sem hafa fæðst í öðru landi, eiga foreldra af erlendum uppruna og/eða dvalist langdvölum í öðru landi. Áætlunin er m.a. mikilvæg svo móttaka barnanna sé samræmd milli leikskólanna í sveitarfélaginu, að börn með fleiri en eitt tungumál fái eins góða þjónustu og kostur gefst og að traust skapist milli leikskóla og foreldra. Í áætluninni eru m.a. upplýsingar um hvernig fyrsta viðtali við foreldra og móttöku barns skuli háttað, hvaða upplýsingar foreldrar eiga að fá, leiðbeiningar um öflugt foreldrasamstarf, upplýsingar um túlkaþjónustu o.fl.