Blátindur VE 21 var til umræðu á fundi framkvæmda og hafnarráðs í gær. Framkvæmdastjóri greindi frá samskiptum við kunnáttumenn í endurbyggingu tréskipa vegna hugsanlegra viðgerða á Blátindi VE. Fram hefur komið eftir skoðun að talið er að kostnaður við að gera bátinn sjóklárann sé ekki undir 80-100 milljónum króna. Að koma bátnum í sýningahæft ástand kostar líklega um 50 milljónir króna. Lagt hefur verið kapp á að fá kunnáttumenn á staðinn til að leggja mat á verkið en ekki hefur unnist tími til þess vegna aðstæðna og anna. Einnig kom fram að kostnaður við að koma Blátindi á þurrt eftir óveðrið í febrúar hefur numið tæpum 9 milljónum króna.