Fyrr í kvöld birtu vefmiðlar í Eyjum tilkynningu frá bæjarstjóra þar sem hún leiðréttir ranga orðanotkun á bæjarstjórnarfundi í gær varðandi kaup Vestmannaeyjabæjar á Íslandsbanka. Umrædd tilkynning barst ritstjóra Eyjafrétta ekki. Í tilkynningunni segir “að Vestmannaeyjabær myndi framselja hluta af húsnæði, sem áformað er að kaupa af Íslandsbanka, til félags í eigu Lögmannsstofu Vestmannaeyja. Einungis stendur til bærinn kaupi hluta af húsnæðinu fyrir 85 m.kr. en umrætt félag kaupir sinn hluta af húsnæðinu á 2. hæð beint af bankanum. Eru þau kaup Vestmannaeyjabæ óviðkomandi.”

Í fylgigögnum með fundarboði bæjarstjórnar er kauptilboðið. Fylgigögn með fundarboði bæjarstjórnar eru opinber gögn. Þar segir “Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar samþykki ég [bæjarstjóri þ.e.] tilboð þetta uppá kaupverð alls eignarhluta Íslandsbanka kr. 100.000.000 með sömu forsendum og í fyrra tilboði þ.e. að Vestmannaeyjabær framselur kaup á eignarhluta 227-0966 til félags í eigu Lögmannsstofu Vestmannaeyja V20 ehf. […]”

Í ljósi enn frekara ósamræmis í orðum bæjarstjóra er ekki úr vegi að spyrja hvort ranga orðanotkun sé þá einnig að finna í undirritaða kauptilboðinu sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi?

Eyjafréttir hafa þegar sent bæjarstjóra umrædda spurningu og munu birta svar þegar það berst.