Löndun stendur nú yfir á 200 tonn af makríl frá Kap VE sem veiddist 30-40 mílur suð-austur af Vestmannaeyjum. „Þetta er stór og fínn makríll miðað við júní-fisk,“ sagði Sindri Viðarsson hjá Vinnslustöðinni í samtali við Eyjafréttir. Um er að ræða fyrsta makrílinn á þessari vertíð sem veiddur er í íslenskri lögsögu en stefnt er að því að heilfrysta aflann. „Við erum bara að koma vinnslunni í gang hjá okkur og þá er fínt að taka svona lítinn skammt til að byrja með. Ég reikna með að Kap fari aftur á veiðar þegar löndun er lokið,“ sagði Sindri að lokum.