Í dag léku Eyjamenn við Grindvíkinga í bikarkeppninni. Leikurinn fór fram í Grindavík og var talsverð spenna fyrir leiknum enda liðunum báðum spáð velgengni í 1. deildinni í ár.

Eyjamenn höfðu yfirburði á öllum sviðum og lauk leiknum með 5-1 sigri Eyjamanna. Gary Martin skoraði þrennu og Telmo, besti leikmaður síðasta tímabils, skoraði tvö. Grindvíkingar náðu að klóra í bakkann með góði marki beint úr aukaspyrnu á síðustu mínútunum sem Halldór Páll Geirsson markmaður ÍBV náði ekki að verja.

Byrjunarlið ÍBV var í dag skipað ungum leikmönnum í bland við reynslumeiri. Það er hvalreki fyrir lið spilandi í 1. deild, að vera með leikmenn eins og Bjarna Ólaf Eiríksson fyrirliða og Gary Martin. Slíkt er frábært tækifæri fyrir yngri leikmenn til þess að læra af. Blaðamanni Eyjafrétta reiknast til að a.m.k. 11 fæddir og uppaldir Eyjamenn hafi komið til sögu í leiknum í dag og einhverjir til viðbótar voru ónotaðir á bekknum.

Strax eftir leikinn var dregið í 32 liða úrslit bikarkeppninnar og mætir ÍBV þar Tindastóli frá Sauðárkróki á Hásteinsvelli. Ekki er komin nákvæm tímasetning á leikinn er hann verður spilaður á tímabilinu 23-25. júní.