Samgöngumál voru til umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku þar var sett fram eftirfarandi áskorun. “Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorar á Reykjavíkurborg að láta af sífelldri aðför sinni að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri og skorar á samgönguráðuneytið að ganga úr skugga um að Reykjavíkurborg vegi ekki frekar að öryggi innanlandsflugs með frekari skerðingu á starfsemi flugvallarins í Vatnsmýri en í samgönguáætlun kemur fram að: Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt á meðan annar jafn góður eða betri kostur er ekki fyrir hendi. Í lok ársins 2018 var tekin skóflustunga að nýju þjóðarsjúkrahúsi Landspítala við Hringbraut. Miðstöð innanlands- og þar með sjúkraflugs þarf að vera eins nálægt sérhæfðri bráðaþjónustu og kostur er. Ákvörðun um staðsetningu nýs hátækni- og brjáðasjúkrahúss við Hringbraut er því grunnforsenda þess og staðfestir nauðsyn þess að innanlandsflugvöllur verði áfram staðsettur í Vatnsmýrinni. Að öðrum kosti væri verið að ógna heilsu og öryggi íbúa og ferðafólks á landsbyggðinni.”