Sigurgeir Jónsson frá Þorlaugargerði hefur verið iðinn á undanförnum árum að gefa út bækur sem tengjast mannlífi og staðháttum í Vestmannaeyjum. Nú sendir hann frá sér nýja bók sem heitir Vestmannaeyjar – af fólki og fuglum og ýmsu fleiru. Þar kennir margra grasa en hvað fyrirferðarmest er þó upprifjun á æskuárunum fyrir ofan hraun og því fólki sem þar bjó.

Einnig er greint frá samskiptum þeirra Sigurgeirs og Katrínar við fuglana í Gvendarhústúninu, tjald og stelk og fleiri fiðraða nágranna.

Þá fjallar Sigurgeir um fjóra eftirminnilega félaga á lífsleiðinni, Bjarnhéðin Elíasson, Sævar í Gröf, Ása í Bæ og Guðmund kantor.

Ýmis sérkenni Vestmannaeyinga fyrr á tíð eru líka tíunduð hér, til dæmis vatnsbúskapurinn í Eyjum áður en vatnsleiðslan var lögð hingað og rifjaðar eru upp fyrstu vikurnar í eldgosinu 1973.

Sigurgeir greinir ennfremur frá nokkrum minnisstæðum atvikum í lífi sínu, svo sem sögulegu brúðkaupsferðalagi þeirra hjóna og eftirminnilegri eggjaferð í Súlnasker, einnig eru rifjaðar upp minningar frá skólaárunum í Reykjavík, þar á meðal er lýsing á jólahaldi á Kleppi, þar sem hann starfaði um hríð og svo þegar hann brá sér í hlutverk skáldsins Jóns Kára og fékk álit skálda og menningarvita á því hvort hann ætti að gefa út ljóðabókina Þokur.

Fyrstu eintök bókarinnar voru afhent á föstudaginn var og fékk þríeykið svonefnda, þau Þórólfur, Víðir og Alma, þau eintök sem viðurkenningu fyrir góða frammistöðu þeirra á undanförnum vikum.

Bókin er komin í sölu í bókaverslunum en einnig verður sérstök kynning á henni á komandi goslokahátíð í Safnahúsinu og verður nánar tilkynnt um hana síðar.