Þegar gengið er um miðbæ Vestmannaeyjabæjar má sjá mikið af ónýttu húsnæði sem eitt sinn settu svip sinn á bæjarlífið með starfsemi sinni. Eitt af þessum húsum er að Vestmannabraut 22, þar sem Pósturinn og þar áður Póstur og sími voru til húsa.

Þann 6. júní 2014 opnaði Íslandspóstur á nýjum stað í Vestmannaeyjum við Strandveg 52. Þar með yfirgaf fyrrum starfstöð sína við Vestmannabraut 22 þar sem pósthús var starfrækt í ein 60 ár.
Í kjölfarið var gamla pósthúsið boðið til sölu hjá Ríkiskaupum og kom hæsta boð frá Þingvangi sem er eigandi hússins í dag. Þingvangur ehf. sérhæfir sig í byggingu á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Í frétt í blaði Eyjafrétta þann 16. september 2015 kom fram, í samtali við Kristján Sveinlaugsson hjá Þingvangi, að til stæði að breyta húsnæðinu í íbúðir sem síðan yrðu seldar. Nú fimm árum seinna hefur hins vegar ekkert gerst nema hvað húsið er heldur farið að láta á sjá.

Húsið við Vestmannabraut 22 hýsti Íslandspóst og Símstöð Vestmannaeyja. Húsið var reist árið 1911 og viðbyggingin, Pósthúsið, var byggð árið 1950. Auk símstöðvar og pósthúss var einnig íbúð stöðvarstjóra í húsinu. (Mynd: Heimaslod.is)

Við höfðum því samband við Þingvang að nýju og spurðum hvenær til stæði að hefja framkvæmdir. „Þetta er verkefni sem hefur alveg setið á hakanum hjá okkur lengi. Við hōfum nokkrum sinnum ætlað af stað með þetta en ōnnur verkefni tekið okkar tíma,“ sagði Agnes Sigurðardóttir hjá Þingvangi. Hún sagði jafnframt að þau væru jafnvel til í að selja húsið frá sér. „Við hōfum undanfarið verið að hugsa um að selja þetta “as is” eða að fara af stað í skipulagsbreytingar til að breyta þessu í íbúðir.“

Þá er bara spurning hvort einhver sjá sér hag eða tækifæri í húsnæðinu sem er stórt og mikið á besta stað í bænum, rúmir 800 fermetrar. „Ef þú veist um einhvern sem væri spenntur fyrir því að kaupa þetta hús eða veist um góða hugmynd um rekstur í þessu húsi þá væri gaman að fá hugmyndir frá einhverjum íbúa á svæðinu eins og þér,“ sagði Agnes að lokum.