Áhafnarmeðlimir á Herjólfi hafa boðað til verkfalls

Kosning um tímabundna vinnustöðvun um borð í Herjólfi meðal félagsmanna Sjómannafélags Íslands fór fram í síðustu viku. Alls eru 21 áhafnarmeðlimur í félaginu en 17 greiddu atkvæði, allir með vinnustöðvun að sögn Jónasar Garðarssonar hjá Sjómannafélagi Íslands.

Fyrsta verkfall hefst á miðnætti þriðjudaginn 7. Júlí og stendur í sólarhring. Næsta vinnustöðvun stendur í tvo sólarhringa og stendur frá miðnætti 14. Júlí og þriðja aðgerðin sem boðuð hefur verið stendur í þrjá sólarhringa og hefst á miðnætti 28. Júlí. Þetta staðfesti Jónas í samtali við Eyjafréttir.

„Þetta mál er í Félagsdómi og við vitum svo sem ekki hvað kemur út úr því. Deilan snýst fyrst og fremst um það að Herjólfur OHF hefur ekki sinnt því að mæta til fundar um kjaramál þrátt fyrir að við höfum ítrekað leitað eftir því. Gerður hefur verið samningur við Sjómannafélagið Jötunn sem þeir líta þannig á sé gildandi kjarasamningur fyrir alla en einungis tveir áhafnarmeðlimir eru félagar í Jötni,“ sagði Jónas.

Ólöglegar aðgerðir
„Við lítum þannig á að þessar aðgerðir séu ólöglegar. Beiðni um viðræður hefur aldrei verið hafnað að okkar hálfu en aldrei hafa verið lagðar fram neinar kröfur fyrr en núna nýlega. Allir starfsmenn Herjólfs eru með gildan ráðningarsamning sem gerður var í upphafi síðasta árs. Félagið er einnig með gildandi kjarasamning við Sjómannafélagið Jötunn,“ sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs OHF í samtali við Eyjafréttir.

Guðbjartur sagði að málinu hefði verið stefnt fyrir Félagsdóm á þriðjudaginn og þingfest sama dag. „Málið verður tekið fyrir í dag og búið er að boða til dómsuppkvaðningar hjá Félagsdómi á mánudag þá kemur í ljós hvort af vinnustöðvun verður,“ sagði Guðbjartur að lokum.

Jólablað Fylkis

Mest lesið