Íþróttafélagið Ægir stendur fyrir fjölskylduratleik um Vestmannaeyjar á sunndaginn kemur og hefst kl. 13.00 á malarvellinum við Löngulág. „Ratleikurinn verður fullur af fróðleik um eyjuna okkar og koma vísbendingarnar úr öllum áttum bæði frá gamla tímanum og úr nútímanum en einnig þarf að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir á leiðinni.
Vísbendingarnar koma til með að vera mis þungar þannig að sumar henta þeim sem eldri eru en aðrar sem henta þeim yngri og þv í betra ef liðsmenn eru á fjölbreyttum aldri,“ segir í lýsingu ratleiksins á viðburði Ægis á Facebook. „Hvert lið má að hámarki skipa 5 keppendum (börn á leikskólaaldri teljast ekki með sem keppendur) og mælum við sem fyrr segir með því að lið innihaldi fólk á öllum aldri þar sem þau yngri geta verið jafn mikilvæg og þau eldri sem kunna vel til sögu Vestmannaeyja. Frábært tækifæri fyrir fjölskyldur að gera sér glaðan dag saman.
Verð fyrir lið er 5.000 kr og skráning fer fram á [email protected], mikilvægt er að taka fram bæði nafn liðs og nöfn allra liðsmanna (líka þeirra sem eru á leikskólaaldri og því of ung til að telja sem liðsmenn).“

Nauðsynlegt er að skrá sig til leiks sem fyrst því ef ekki næst næg þátttaka verður leikurinn blásinn af. Það er því um að gera að hóa saman mömmu og pabba og afa og ömmu í eitt gott lið og taka þátt í skemmtilegum leik og styrkja í leiðinni gott málefni.