ÍBV hefur kynnt samninga við tvo unga uppalda leikmenn það sem af er júlí en það eru þau Ásta Björt og Ívar Logi.

Ásta Björt Júlíusdóttir hefur gert nýjan 1 árs samning við ÍBV. Ásta er eins og allir vita uppalin Eyjastelpa sem hefur leikið vel með liðinu undanfarin ár. Á síðasta tímabili fékk Ásta Björt ennþá stærra hlutverk í liðinu en áður og er óhætt að segja að hún hafi nýtt sér það vel. Hún skoraði 111 mörk í 18 leikjum í Olísdeild kvenna og var einn markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt því að skora 82 mörk í 13 leikjum með U-liðinu í Grill 66 deild kvenna.

Ívar Logi Styrmisson hefur gert nýjan þriggja ára samning við ÍBV. Ívar er uppalinn Eyjapeyi sem hefur leikið með U-liði félagsins og meistaraflokki síðustu ár. Hann fékk þónokkur tækifæri með aðalliðinu síðasta vetur og stóð sig með mikilli prýði.