Minning: Sigurbjörn M. Theodórsson

Sigurbjörn M. Theodórsson

Það er mikil gæfa að eiga móðurbróður (reyndar tvo móðurbræður og fjórar móðursystur) sem er svo stór og dýrmætur partur af lífi mínu. Orð eru fátækleg á svona stundum en svona minnist ég Sibba frænda sem verður jarðsettur frá Landakirkju í dag. Greinin birtist í Morgunblaðinu.Stóri frændi minn. Uppáhaldsfrændi minn.Þvílík ævintýraveröld sem það var að vera litla frænka þín. Í uppvexti mínum minnist ég sögustunda sem voru svo ótrúlegar að ég var með stjörnur í augum, hugsandi hverslags ofurhetja þú værir eiginlega! Sögur um siglingar til framandi landa þar sem þú slóst við sjóræningja, ljón og krókódíla og vannst alla bardaga. Það skipti engu máli hversu ótrúverðug sagan væri, ég trúði öllu sem þú sagðir!

Þá daga sem þú varst í landi sótti ég í að vera hjá þér, hjá þér mátti nefnilega allt og þú sagðir aldrei nei við neinu. Mér fannst þú svo skemmtilegur, fyndinn og klár. Þú last fyrir mig, við sungum saman, þú leyfðir mér að spila í spilakassanum þínum, fikta í glymskrattanum og fá tyggjó í tyggjókúluvélinni. Já, þú áttir spilakassa, glymskratta og tyggjókúluvél,- fyrir mér var enginn eins svalur og þú!Best af öllu voru svo hamborgarakvöldin okkar. Þar hentirðu borgurunum eins hátt upp í loft og hægt var og fíflaðist og grínaðist. Það var allt í lagi þó allt færi út um allt, svo lengi sem það var gaman hjá okkur!Eftir því sem ég varð eldri myndaðist með okkur gott og dýrmætt vina -og trúnaðarsamband. Við deildum skoðunum á fótbolta, tónlist, stjórnmálum, myndlist, mönnum og málefnum. Á lífinu sjálfu. Öllu milli himins og jarðar. Órjúfanleg vinátta og gagnkvæm virðing.
Lífið er flókið fyrirbæri og öll höfum við bresti sem okkur fylgja. Við reyndum að hjálpast að í gegnum þennan öldudal sem lífið er og ég vildi óska að ég hefði getað gert meira.Takk fyrir að láta aldrei langan tíma líða á milli þess að láta mig vita hvað þér þótti vænt um mig. Þú sagðir mér ítrekað að þú værir stoltur af mér, bæði í leik og starfi, rósinni þinni eins og þú kallaðir mig svo oft.Ég vona að þú vitir hversu vænt mér þótti um þig líka og að ég sakna þín svo sárt. Ég vona líka að þú munir fylgjast með mér og haldir áfram að vera stoltur af mér.Þú ert og verður alltaf stærsta stjarna heimsins í mínum augum.Þín frænka,Margrét Rós


 Sigurbjörn verður jarðsettur frá Landakirkju í dag, miðvikudaginn 8.júlí kl. 14.00.

Ökuland
Epoxy gólf – SS Gólf ehf
Nordika –