Traustar og öruggar samgöngur eru lykilatriði í rekstri nútíma samfélags. Vestmannaeyjar hafa lengi búið við bresti og vantraust á samgöngum. Oftast eru það náttúruöflin sem ráða för, en stundum eru það mannanna verk!
Ferðaþjónustan í landinu rær lífróður í fordæmalausu umhverfi og baráttan aldrei verið harðari. Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa í samstarfi við Vestmannaeyjabæ hrint af stað kostnaðarsömu markaðsátaki, markmiðið að verja störf bæjarbúa og fyrirtæki áföllum. Sem betur fer virðist það vera að takast.
Í ljósi aðstæðna verður það að teljast með miklum ólíkindum að á þessum tímum birtist vinnustöðvun á Herjólfi, stærsta ferðaþjónustuaðila í Vestmannaeyjum. Samgöngur lokast. Traust ferðamanna á öryggi samgangna milli lands og Eyja bregst í júlí!

Nú þurfa deiluaðilar að beita öllum öðrum aðferðum en þeim sem draga úr trausti á samgöngum við Vestmannaeyjar. Fórnarkostnaðurinn gæti orðið gríðarlegur.
Nú er rétt og nauðsynlegt að skoða stóru myndina!
Ferðamálasamtök Vestmannaeyja
