Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar voru enn til umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku.

Munu leita álits sveitastjórnarráðuneytis
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu um málið en þeir voru frá upphafi andvígir kaupum Vestmannaeyjabæjar á húsnæði Íslandsbanka. Á síðasta fundi bæjarstjórnar þann 11. júní samþykkti meirihluti H- og E- lista kauptilboð alls eignarhluta Íslandsbanka á Kirkjuvegi 23 upp á 100 milljónir króna eða orðrétt: ,,Jafnframt leggur meirihlutinn til að gengið verði að lokatilboði Íslandsbanka um kaup á húsnæði bankans við Kirkjuveg og hluti þess seldur til félags í eigu Lögmannsstofu Vestmannaeyjabæjar skv. samkomulagi þar um? Í kauptilboðinu sjálfu var kveðið á um að Vestmannaeyjabær myndi framselja eignarhluta til Lögmannsstofu Vestmannaeyja upp á 15 milljónir króna sem hefði áfram aðgang að kaffistofu annarrar hæðar.

Í kjölfar samþykktar meirihluta bæjarstjórnar fór fram ítarleg fjölmiðlaumfjöllun um málið á fréttavefnum eyjar.net og tók þá málið stjórnsýslulegum kúvendingum þar sem bæjarstjóri tók fram að Íslandsbanki myndi selja lögmannsstofunni þeirra hluta beint. Þær upplýsingar höfðu aldrei áður komið fram í samskiptum meiri- og minnihluta og er þvert gegn samþykkt bæjarstjórnar. Á næsta fundi bæjarráðs var svo lagður fram kaupsamningur stílaður 29. maí, þar sem kom fram að Vestmannaeyjabær væri að kaupa hluta eignarinnar á 85 milljónir. Ekki er viðtekin venja að leggja fram kaupsamninga bæjarins heldur hafa kauptilboð nægt líkt og nýleg dæmi sýna. Framvinda málsins virðist því einkennast af eftiráskýringum sem standast ekki skoðun. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru afar ósáttir við feril málsins og munu leita álits sveitastjórnarráðuneytis hvort hann teljist með eðlilegum hætti.

Ættu að fagna hundruða milljóna sparnaðaði
Meirihlutinn svaraði með bókun, “Það er miður að sjálfstæðismenn skuli með villandi hætti tortryggja og flækja einfalt mál. Vestmannaeyjabær hefur nú fest kaup á 1. hæð, kjallara, bílskúr og hluta 2. hæðar Íslandsbankahússins fyrir 85 milljónir. Um er að ræða 85% eignarhlut í húsi Íslandsbanka að Kirkjuvegi 23. Önnur sala bankans á húsnæði sínu er ekki hluti af kaupum Vestmannaeyjabæjar og því ástæðulaust að flækja þeim inn í málið.
Aldrei, á neinum tímapunkti hefur það staðið til að bærinn kaupi eða eigi nokkurn þátt í því að kaupa meira en þær eignir sem nú hafa verið keyptar. Fullyrðingar um slíkt eru tilraunir til þess að tortryggja þetta framfaraskref fyrir starfsfólk og þjónustuþega fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar.
Það færi betur á því að minnihlutinn fagnaði hundruða milljóna sparnaði sem næst með því að flytja bæjarskrifstofurnar ekki í Fiskiðjuna líkt og til stóð.”

Stjórnsýsluleg mistök
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu þá, “Það eina sem er villandi í málinu eru vinnubrögð H og E lista við afgreiðslu málsins. Það er af og frá að með kaupum á fasteign sem rúmar ekki allar bæjarskrifstofunnar sé verið að spara fjármuni, enda hafa engar rekstraráætlanir til framtíðar verið lagðar fram í málinu, eingöngu minnisblað um kostnað við fasteignakaup. Meirihlutinn gerðist að öllum líkindum sekur um stjórnsýsluleg mistök við afgreiðslu málsins.”

Liður 3 var samþykktur með fjórum atkvæðum E og H lista gegn þremur atkvæðum D lista.

Svara ekki spurningum
Óásættanlegt er að bæjarfulltrúar meirihlutans svari ítrekað ekki spurningum sem formlega er beint til þeirra á opinberum fundi bæjarstjórnar. Það er lágmarkskrafa að kjörnir fulltrúar svari spurningum sem beint er til þeirra á opinberum fundum. Bókuðu Sjálfstæðismenn að lokum.