Kæru Þjóðhátíðargestir
Allar götur síðan COVID-19 breiddist út hefur Þjóðhátíðarnefnd unnið að ýmsum sviðsmyndum og haft mikið og gott samráð við Almannavarnarnefnd í þeirri vinnu. Síðasta sviðsmynd sem við vorum með var setning hátíðar, ball fyrir 2.000 manns í Herjólfsdal og ein kvöldvaka þar sem dalnum yrði skipt í þrjú 2.000 manna svæði.

Þjóðhátíð 2020 aflýst
Eftir fréttir síðustu daga hefur verið ákveðið að blása hátíðina af með einu og öllu. ÍBV mun ekki standa fyrir einum einasta viðburði um Verslunarmannahelgina, hvort um sé að ræða dansleiki, tónleika, brennu, brekkusöng eða hvað eina. Með þessu viljum við sýna fulla ábyrgð og taka af allan vafa um að ÍBV muni standa fyrir viðburði sem kynni að storka fjöldatakmörkunum.

Öll hjálp vel þegin
Þjóðhátíð er gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir barna- og unglingastarf ÍBV og er ein ástæða þess að félagið getur haldið úti jafn öflugu starfi í litlu samfélagi og raun ber vitni. Á vordögum fór af stað átak hjá nokkrum Eyjamönnum sem keyptu miða og skoruðu á aðra að gera slíkt hið sama, hvort sem Þjóðhátíð yrði haldin eða ekki og styrkja þannig ÍBV ef engin yrði hátíðin. Ef fólk kýs að fá miðann sinn ekki endurgreiddan er slíkur stuðningur gríðarlega vel þeginn á þessum erfiðu tímum í rekstri barna- og unglingastarfs og ljóst að
slíkur stuðningur hvetur okkur áfram til góðra verka. Einnig verður áfram í boði að kaupa miða á Þjóðhátíð 2020 fyrir þá sem vilja styrkja félagið.

Þjóðhátíð 2021
Nú þegar er undirbúningur hafinn fyrir Þjóðhátíð 2021. Þeir sem keypt hafa miða á Þjóðhátíð 2020 mun gefast kostur á að flytja miðann á næsta ár, enda ljóst að miðaverð á Þjóðhátíð 2021 mun verða hærra en í ár.

Þjóðhátíðarlag 2020
Á föstudaginn mun Þjóðhátíðarlagið 2020 verða frumflutt í Brennslunni á FM957. Höfundar lags og texta eru bræðurnir Ingólfur og Guðmundur Þórarinssynir en Ingó hefur glætt Þjóðhátíð lífi síðustu ár eins og landsmenn þekkja. Lagið heitir Takk fyrir mig. Bræðurnir og Þjóðhátíðarnefnd voru algerlega sammála um að gefa út lagið þrátt fyrir þessi örlög.

Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja kemur út
Venju samkvæmt verður Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja gefið út þrátt fyrir að Þjóðhátíð í Herjólfsdal falli niður í ár. Blaðið sem er veglegt að sniðum hefur komið út um áratugaskeið og hverfist um hátíðina í Herjólfsdal. Útgáfudagur Þjóðhátíðarblaðsins er áætlaður föstudaginn 31. júlí og verður hægt að nálgast blaðið í Eyjum og á fastalandinu. Gefst velunnurum Þjóðhátíðar þannig færi á að styðja við ÍBV með kaupum á blaðinu.

Endurgreiðsla miða
Vinna við endurgreiðslukerfi er í fullum gangi og verður vel kynnt þegar endurgreiðslur munu hefjast, í síðasta lagi í lok þessa mánaðar. Fólk mun standa frammi fyrir þremur kostum; a) Að fá miðan endurgreiddann, b) að styrkja ÍBV um andvirði miðans, og c) að flytja miðann yfir á Þjóðhátíð 2021.
Að lokum viljum við þakka fyrir þá þolinmæði sem okkur hefur verið sýnd á þessum skrýtnu tímum. Sjáumst hress á Þjóðhátíð 2021, sem verður eflaust sú glæsilegasta sem sést hefur!

F.h. ÍBV og Þjóðhátíðarnefndar,
Hörður Orri Grettisson