Í yfirlýsingu sem Jónas Garðarsson f.h. Sjómannafélags Íslands sendi frá sér í gær beinir hann spjótum sínum að bæjaryfirvöldum og bæjarstjóra Vestmannaeyja og sakar þau um að vilja ekki gera kjarasamning við starfsfólk í Sjómannafélagi Íslands sem starfa umborð í Herjólfi.
Jónas Garðarsson veit fullvel að þessir aðilar eru eigendur að félaginu en fara ekki með daglega stórn þess. Vestmannaeyjaferjan Herjólflur ohf. er hlutafélag í opinberri eigu með 5 manna stjórn sem ber ábyrgð á starfsemi og rekstri félagsins. Það hefur legið fyrir frá upphafi og ætti að vera öllum ljóst.
Hann sakar bæjaryfirvöld og bæjarstjóra um að beita þernur og háseta “fádæma ofríki” og vísar til lagasetninga í Kreppunar miklu frá 1938, brot á grunnrétti launafólks, lög um vinnudeilur og nú síðast dómi Félagsdóms frá síðustu viku.
Jónas Garðarsson veit vel hverjir fara með samningsumboðið í þessari kjaradeilu f.h Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Aðrir aðilar hafa ekki aðkomu að deilunni f.h. fyrirtækisins.
Jónas Garðarsson gengur lengra og sakar ríkisstjórnina og forsætiráðherra landsins um tómlæti og krefst aðgerða vegna þess að fyrirtækið notar Herjólf III í siglingum milli Vestmannaeyja og lands. Enn fremur er frjálslega farið með, í yfirlýsingu hans, umfjöllun um vinnutíma og skiptingu vinnutíma í dagvinnu, helgarvinnu og yfirvinnu. Það er því með ráðum gert að afvegaleiða staðreyndir máls.
Allur þessi málflutningur í yfirlýsingu Jónasar Garðarssonar dæmir sig sjálfur en hjá því verður ekki komist að benda á þá staðreynd að þegar öll rök og öll vopn eru fallinn úr hendi er spjótum beint í aðrar áttir. Jónas Garðarsson hefur því tekið ákvörðun um að flytja mál sitt með þessum hætti í fjölmiðlum og vísvitandi setja staðreyndir í annan búning, draga að, í umfjöllun sinni hvern þann sem hann kýs og skipir þá ekki máli hvort sá eða þeir eru aðilar að kjaradeilunni.
Hið rétta er að það hafa engin lögbrot verið framin og það hefur enginn verið beittur fádæma ofríki.
Lögmæt vinnustöðvun félagsmanna Sjómannafélags Íslands liggur fyrir, um það hefur Félagsdómur úrskurðað og virðir fyrirtækið þá niðurstöðu. Félagsdómur tók jafnframt í sama máli fyrir lögmæti kjarasamnings Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum þar sem forgangsréttarákvæði er til staðar og gildir fyrir alla undirmenn umborð í ferjum félagsins. Félagsdómur hefur verið birtur og geta aðilar kynnt sér hann.
Aðrir starfsmenn sem ekki eru í Sjómannafélagi Íslands eru ekki í verkfalli og hafa vinnuskyldu. Þetta er óumdeilanlegt og kemur fram í Félagsdómi. Það er því ljóst að ferjurnar geta siglt með starfsmönnum sem ekki eiga aðild að Sjómannafélagi Íslands.
Vekja þarf jafnframt athygli á því að Vestamannaeyjaferjan Herjólfur ohf. er með þurrleigusamninga um bæði Herjólf og Herjólf III og getur því ráðstafað ferjunum að eigin vild eins og kveðið er á um í samningi milli aðila.
Jónas Garðarsson hefur ekki kært meint lögbrot fyrirtækisins þegar það sigldi í gær á annarri áhöfn en starfsmanna í Sjómannfélagi Íslands. Engar tilraunir voru heldur gerðar til að stöðva siglingar og engar kærur hafa verið lagðar fram. Ástæðan er einföld, Jónas Garðarsson er búinn að lesa dóm Félagsdóms frá síðustu viku og veit sem er að slík kæra mun ekki falla honum í vil.
Það er afskaplega miður þegar forystumenn stéttarfélaga eins og Sjómannafélags Íslands falla það lágt að draga einstaka starfsmenn eða aðra ótengda aðila að deilunni. En Jónas Garðarsson veit að tilgangurinn helgar meðalið og því er þessari aðferð beitt því enginn önnur er tiltæk sem stendur.

Að lokum
Kjarasamningur sem var gerður við Sjómannafélagið Jötunn byggir á lífskjaraleiðinni sem almennt hefur verið samið um á Íslenskum vinnumarkaði. Allir starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið launabreytingum samkvæmt honum. Starfsmönnum í Sjómannafélagi Íslands sem krafist hafa kjarasamnings hefur verið boðið að fá kjarasamning á þessum grunni sem er þá á milli Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og Sjómannafélags Íslands. Þessu boði hefur verið hafnað af forystumönnum Sjómannafélags Íslands og aðrar og meiri kröfur hafa verið lagðar fram. Kröfur sem eru óaðgengilegar fyrir fyrirtækið.
Ágreiningur og átök á vinnumarkið eru alltaf erfið, fyrir alla, og geta valdið til lengri tíma vanlíðan og sárindum. Það er því mikilvægt að umfjöllun og umræða sé málefnaleg og skýr. Það er ekkert athugavert að aðilar séu ekki sammála og því reynir á að málflutningur byggi á rökum en ekki sleggjumdómum, tilfinningum eða sögusögnum. Gróa á Leiti er ein frægasta söguhetja Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns hvar hún átti orðatiltækið “ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því”, forðumst því Gróu á Leiti og einbeitum okkur að verkefninu sem er að leysa þessa kjaradeilu.
Fulltrúar Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. hafa á öllum tímum lýst yfir vilja til samtala við forystumenn Sjómannafélags Íslands og fulltrúa starfsmanna á grunni lífkjaraleiðarinnar. Það er áréttað að sá vilji er enn til staðar.

Guðbjartur Ellert Jónsson
Framkvæmdastjóri
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf.