„Ég kom hingað frá Póllandi fyrir fimm árum. Systir mín hafði áður flutt til Íslands og útvegaði mér vinnu í Vinnslustöðinni. Sjálf starfar hún hjá Leo Seafood ehf. í Vestmannaeyjum. Anna kom frá Póllandi einu ári á eftir mér.

Við kynntumst í Eyjum, urðum par, búum saman og vinnum líka saman! Okkur líður vel á Íslandi og hér ætlum viljum við vera til frambúðar.“

Milosz Adrian Szczesny segir brosmildur ástar- og ævintýrasögu þeirra Önnu Bara. Þau starfa bæði tvö í bolfiski og humri í Vinnslustöðinni. Hann var nýlega ráðinn flokksstjóri á því sviði starfseminnar og hafði áður leyst af sem slíkur í eitt ár eða svo.

Flokkstjóri vinnur eins og hver annar í framleiðslunni en hefur jafnframt það hlutverk að fylgjast með því að vinnslan gangi snurðulaust fyrir sig og er verkstjóranum til aðstoðar eftir atvikum.