„Brennan verður á sínum stað á miðnætti á föstudegi það var ákveðið í vor og því verður ekki breytt,“ sagði Bragi Magnússon brennustjóri í samtali við Eyjafréttir. Hefð er fyrir því að vinna við brennuna uppi á Fjósakletti hefjist í kringum mánaðamótin júní/júlí. „Það stóð náttúrulega alltaf til að halda Þjóðhátíð í einhverri myndi og það var því nokkuð ljóst að þá þyrfti brennu. Þegar þessi ákvörðun er svo tekin um að aflýsa öllu erum við komnir vel af stað og enginn áhugi fyrir því að hætta og byrja að rífa niður.“

Velunnarar brennunnar
Það er hefð fyrir því að strákarnir í handboltanum sjái um stöflun og annað sem tengist brennunni. Bragi segir brennuna þetta árið vera í höndum velunnara brennunnar og ÍBV komi hvergi að með beinum hætti. „Auðvitað gerir þetta alla framkvæmd fyrir okkur mun flóknari. Það er töluverður kostnaður sem fellur til, þar má nefna efni, tryggingar, úttektir, leyfisbréf og fleira. Auk þess þurfum við að manna gæslu og annað í tengslum við framkvæmdina.

Öll hjálp vel þegin
Bragi segir þetta vissulega vera sérstakt en hann hlakki mikið til enda brenna á Fjósakletti hápunktur sumarsins að hans mati á ári hverju og vonast hann til að þetta gangi allt upp hjá þeim. Bragi vildi koma því á framfæri ef einhverjir vildu leggja þeim lið með að taka þátt í gæslunni eða með fjárframlagi þá væri það vel þegið. „Hver vill ekki vera velunnari brennunnar?“ sagði Bragi hress að lokum.