Opið bréf til samgönguráðherra

Jónas Garðarsson skrifar

Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur III mönnuð verkfallsbrjótum sigldi frá Vestmannaeyjahöfn til Landeyjarhafnar á hádegi miðvikudaginn 15. júlí síðastliðinn. Útgerð Herjólfs ohf. í eigu Vestmannaeyjarbæjar notar eigur ríkisins til verkfallsbrota og beitir launafólk lögleysu og ofríki. Hið opinbera hlutafélag í eigu bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum hefur brotið grunnréttindi launafólks; lög um vinnudeilur og gegn dómi Félagsdóms. Um er að ræða eina alvarlegastu árás sem gerð hefur verið á réttindi íslensks launafólks.

Sjómannafélag Íslands fyrir hönd félagsmanna á Herjólfi krefst þess að ráðherra, ríkisstjórn og þingmenn banni Herjólfi ohf. að nota ríkiseigur – Herjólf – til verkfallsbrota; skip og hafnaraðstöðu.
Ráðherra upplýsi um samning ríkisins við Vestmannaeyjabæ um leigu á skipunum. Getur bærinn nýtt og notað skipin án skilyrða? Er tryggt að íslensk lög og reglur um réttindi launafólks séu tryggð í leigusamningi? Er mönnum frjálst að nota ríkiseigur til lögbrota?

Félagsdómur: Verkfall dæmt löglegt
Mánudaginn 6. júlí sl. dæmdi Félagsdómur verkfall Sjómannafélags Íslands löglegt. Þar með var kröfu um ólögmæti verkfalls hrundið. Hið opinbera hlutafélag hafði fengið Samtök atvinnulífsins í lið með sér. Það var slegið í klárinn en allt kom fyrir ekki. SA og bærinn fóru sneypuför. Í dómi Félagsdóms segir: „…Er stefnda heimilt að beita verkfalli í því skyni að knýja stefnanda til að gera kjarasamning um þessi störf félagsmanna sinna enda eru kröfur hans ekki ósamrýmanlegar kjarasamningi við réttargæslustefnda. Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um að boðuð vinnustöðvun verði dæmd ólögmæt…“. Félagsdómur dæmdi að Herjólfi ehf. beri að ganga til viðræðna og gera kjarasamning.

Brotið gegn 82 ára grundvallarreglu
Bæjaryfirvöld í Eyjum viðhafa vinnubrögð sem hafa ekki þekkst frá setningu laga árið 1938 um vinnustöðvanir. Þar segir í 18. grein: „Þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, er þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa.“
Frá setningu laganna hefur ekki hefur verið uppi ágreiningur um rétt launafólks til vinnustöðvana, eða í 82 ár. Nú hefur opinbert hlutafélag brotið grundvallarreglu á vinnumarkaði.

Vinnuskylda utan dagvinnu 2/3
Í desember 2018 lýsti Sjómannafélag Íslands því yfir að álag á háseta og þernur um borð í nýjum Herjólfi væri með þeim hætti að óviðunandi væri. Þetta lá fyrir áður en hin opinbera bæjarútgerð var stofnuð. Sjómannafélagið fór fram fram á viðræður. Deilunni var vísað til Ríkissáttasemjara í febrúar 2020. Staðfestum bréfum, símtölum og sms-boðum Sjómannafélags Íslands var í engu sinnt af framkvæmdastjóra eða stjórn Herjólfs ohf. sem nú saka Sjómannafélagið að vilja ekki viðræður! Í stað viðræðna var samið við venslamenn í Verkalýðsfélaginu Jötni með tvo félagsmenn um borð á móti 20 félagsmönnum Sjómannafélags Íslands. Gjörð hins opinbera hlutafélags er fordæmalaus.
Það er rétt að upplýsa að vinnuskylda háseta og þerna sem annarra skipverja um borð í Herjólfi er frá hálfsjö að morgni fram yfir miðnætti til klukkan hálftvö. Vinnutími fólksins er að 2/3 utan dagvinnutíma. Fólkinu er gert að vinna þrjár helgar í mánuði og alla hátíðsdaga. Bæjaryfirvöld í Eyjum neita að fylgja fordæmi Eimskips og Samskips og fjölga þernum úr 3 í 5 vegna álags yfir hásumarið. Fyrir þetta fær fólkið 720 þúsund fyrir 190 vinnustundir á mánuði. Sætta ráðherrar og þingmenn sig við svona kjör og svona vinnutíma?

Slúður um ofurkröfur og ofurkjör
Slegið var á útrétta sáttarhönd þegar Sjómannafélagið bauðst að bæta aðeins einni þernu í áhöfn yfir hásumarið og fresta verkfalli. Í stað sátta dreifir hið opinbera hlutafélag Vestmannaeyjabæjar slúðri um ofurkröfur og ofurkjör og magnar andúð á áhöfninni í eigin bæjarfélagi. Þekkja menn sambærileg dæmi?
Þegar vélstjóri neitaði að ræsa vélar Herjólfs svo brottför tafðist sagði framkvæmdastjórinn að gamla Herjólfi hafi seinkað þar sem skipið hafi legið svo lengi við bryggju! Nýi Herjólfur fari í skoðun í september og sigli því ekki! Auðvitað gildir einu hvort nýi eða gamli Herjólfur sigli, lögbrotið er hið sama svo það sé útskýrt. Rétt er að benda á að gamli Herjólfur sigldi með venslamenn fulltrúa í bæjarstjórn og fjölskyldumeðlimi framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. Sannleiksunnandi í stól framkvæmdastjóra, eða hvað finnst ráðherra?
Bæjaryfirvöld bera að sjálfsögðu fulla ábyrgð ofríkinu í Eyjum. Íris Róbertsdóttir bæjarstýra segist ekki taka afstöðu og deilan sé ekki á hennar borði. Bæjarstýra er að skjóta sér undan ábyrgð, svo eftir er tekið. Íris heldur á eina hlutabréfinu í bæjarútgerðinni sem rekur Herjólf. Þarf að viðhafa um það fleiri orð?

Reykjavík 17. apríl 2020

Virðingarfyllst
Jónas Garðarsson,
formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands.