Á þriðjudaginn rann út frestur til að skrá sig til þátttöku í Evrópukeppnum EHF. Alls eru fimm félagslið skráð til keppni frá Íslandi en Valsmenn skráðu sig til leiks í Evrópudeild karla og Afturelding og FH skráðu sig til leiks í EHF keppni karla. Valur og KA/Þór skráðu sig í EHF keppni kvenna.

Karlalið ÍBV vann sér inn þátttökurétt í EHF keppni karla síðasta vetur með því að sigra bikarkeppni HSÍ. Stjórn ÍBV tók þá ákvörðun að skrá liðið ekki til keppni að þessu sinni. Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar sagði í samtali við Eyjafréttir að í eðlilegu árferði hefði ÍBV að sjálfsögðu tekið þátt. “Við erum bara í þeirri stöðu að fjárhagsleg óvissa er mikil hjá okkur og ljóst að stórir tekjupóstar í tengslum við þjóðhátíð eru að fara forgörðum. Það var því ákvörðun stjórnar að fara ekki út í fjárhagslegar skuldbindingar í tengslum við Evrópukeppni.”

Vilmar segir að heilsufarslegar ástæður hafi einnig verið hafðar að leiðarljósi við þessa ákvörðun. “Staðan er bara sú að líklega hefðum við getað dregist á móti liðum sem koma frá löndum þar sem mis vel hefur verið tekið á faraldrinum og það er staða sem við erum ekki spennt að bjóða okkar leikmönnum uppá,” sagði Vilmar

Gera má ráð fyrir að Valsmenn hefji leik í lok ágúst en aðrar keppnir hefjast í september og október.